132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Þróun efnahagsmála.

[13:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er nú svo að oft eru tvær hliðar á sama máli og vissulega er staða ríkissjóðs sterk sem slík en ríkissjóður er bara hluti af heila landskerfinu og getur ekki horft á sig einangraðan hvað það varðar. Það sem hefur verið að gerast í atvinnulífinu á síðustu missirum er víða mjög alvarlegt og það er sorglegt ef forustumenn ríkisstjórnarinnar gera sér ekki grein fyrir því.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði í útvarpsviðtali í júníbyrjun á þessu ári þegar verið var að loka einu stærsta atvinnufyrirtæki á Bíldudal, með leyfi forseta: „Ruðningsáhrif stóriðjunnar geta líka verið af hinu góða.“ Þetta sagði ráðherrann við þá sem voru að missa vinnuna á Bíldudal.

Síðan hafa fleiri fyrirtæki lokað, fyrirtæki á Súðavík, Blönduósi og Húsavík sem eru að vinna útflutningsvörur fyrir gjaldeyri og styrkja þannig tekjugrunn þjóðarinnar. Gengisvísitalan er nú í kringum 103 eða 104. Samkvæmt áætlun fjármálaráðuneytisins fyrir þetta ár átti hún að vera 120. Einar Oddur Kristjánsson, einn af sérfræðingum sjálfstæðismanna í efnahagsmálum segir í viðtali við Viðskiptablaðið 8. desember síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Fari gengið niður fyrir 110 þá er mér öllum lokið.“ Er honum lokið?

(Forseti (BÁ): Forseti ítrekar tilmæli til hv. þingmanna að gæta þess að ávarpa hæstv. ráðherra og hv. þingmenn með réttum hætti.)