132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Þróun efnahagsmála.

[14:06]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þau svör sem hann gaf hér. Þau voru í sjálfu sér mjög upplýsandi vegna þess að það sem hæstv. forsætisráðherra sagði og síðan hæstv. utanríkisráðherra og fjármálaráðherra líka var í rauninni að ríkisstjórnin ætlar ekkert að gera, hún hefur engu hlutverki að gegna í hagstjórninni og hún beitir ekki ríkisfjármálunum sem sveiflujöfnunartæki. Til lengri tíma litið segjast þeir hafa hlutverki að gegna en að ekki eigi að beita ríkisfjármálunum sem hagstjórnartæki eða til sveiflujöfnunar. Ég hygg að hæstv. ráðherrarnir séu nokkuð einir um þessa skoðun.

Það eru ekki bara við í stjórnarandstöðunni sem höfum haft áhyggjur af því hver staða mála er. Eins og hér kom fram er það Seðlabankinn, samtök atvinnulífsins, verkalýðshreyfingin og greiningardeildir bankanna. Það er ekki eins og við séum ein á báti að tala um þessa hluti. Auðvitað viðurkenna menn að hér hefur verið öflugur hagvöxtur. Hér er mikil gróska á mörgum sviðum en það eru ákveðnar blikur á lofti og það er óneitanlega til marks um afneitun að ríkisstjórnin skuli ekki taka mið af þessu og taka mark á því sem menn eru að segja hér úti um allt kerfið. Ríkisstjórnin ætlar að gera allt sem í hennar valdi stendur til að halda verðhækkunum í skefjum sagði hæstv. forsætisráðherra, en hvernig? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að gera það? Hvernig ætlar hún að beita sér? Hann var fáorður um það.

Hann taldi að ég væri að taka of mikið upp í mig þegar ég sagði að kjarasamningar væru brostnir. Ég er ekki að segja þetta hér. Þetta er ekkert nýtt fyrir einum eða neinum vegna þess að þetta hefur verið haft eftir forsvarsmönnum verkalýðshreyfingarinnar í fjölmiðlum á undanförnum dögum og ég leyfi mér að segja vikum. Hagfræðingur Alþýðusambandsins sagði síðast í fjölmiðlum í gær að forsendur kjarasamninga væru brostnar þannig að það þarf ekki mig til að segja það. (Forseti hringir.) Þetta segir verkalýðshreyfingin.