132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Þróun efnahagsmála.

[14:08]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja út af kjarasamningum og beitingu ríkisfjármálanna í því sambandi. Ég hef ekki trú á því sem hagstjórnartæki að rjúka nú upp til handa og fóta vegna ársins 2006 og hætta við skattalækkanir eða fara í enn frekari niðurskurð. Hvað er það sem hv. stjórnarandstæðingar vilja skera niður? Ég heyrði það ekki á ræðum hv. þingmanna í gærkvöldi að þeir væru búnir að setja sig í slíkar stellingar. Tekjuskattur lækkar um eitt prósentustig á næsta ári. Það eru 4–5 milljarðar. Hafa menn virkilega trú á að það muni breyta öllu við þær aðstæður sem nú eru? Hér hafa verið keypt skuldabréf af erlendum aðilum í íslenskum krónum undanfarið fyrir 70 milljarða. Það er hins vegar von mín og trú að það muni verða verulegar breytingar á næstunni. Það hafa orðið breytingar á húsnæðismarkaðnum. Þess eru merki að innflutningur sé að hjaðna, t.d. bílainnflutningur, þannig að mér finnst ástandið ekki vera eins óskaplega dökkt og hv. þingmenn tala um. Hérna er gott ástand og ég bið hv. þingmenn að lesa nýja úttekt Dana á ástandinu hér á landi þar sem stendur: Ísland vinnur sig fram sem þjóð sem er að vinna, sem er „vindernation“, (Gripið fram í: ... sem er að vinna.) já, já, það er tvöföld merking í að vinna en báðar jákvæðar og ég hvet hv. þingmenn, (Forseti hringir.) sérstaklega stjórnarandstöðunnar, til að lesa þessa úttekt Dana á Íslandi. Ég held að stjórnarandstaðan yrði miklu bjartsýnni á eftir og ég held að henni veiti ekki af.