132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[14:45]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta svar hæstv. forsætisráðherra veldur mér miklum vonbrigðum því að hér er um mjög stórt mál að ræða. Ég tel að við getum ekki afgreitt þetta frumvarp frá hinu háa Alþingi fyrr en við höfum komist til botns í því hvernig við ætlum að fjármagna síðari hluta Sundabrautar, sem er mjög góð og þörf framkvæmd, hvernig við ætlum að fjármagna hana á sama tíma og við erum að innheimta veggjöld í Hvalfjarðargöngum. Við verðum að hafa í huga að vegtollurinn, sem hugsanlega verður settur á, verður hér innan marka höfuðborgarsvæðisins. Þetta verður vegtollur upp í einn af tíu borgarhlutum á Reykjavíkursvæðinu, upp á Kjalarnes, og líka vegtollur áfram norður á svæðin fyrir ofan Hvalfjörð, norður í land og vestur á firði. Ef við ætlum á sama tíma að innheimta veggjöld í Hvalfjarðargöngum lendum við strax í miklum vandræðum.

Það er mikill ábyrgðarhluti fyrir okkur sem hér erum að við hugsum fyrir svona hlutum áður en við afgreiðum lagafrumvörp frá hinu háa Alþingi eins og mér sýnist að ríkisstjórnin ætli að gera.