132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[14:47]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þingmaður bregðast afar undarlega við þessu máli með Sundabrautina. Það er verið að setja 8 milljarða í þessa brýnu framkvæmd. Ég held að það hljóti að vera ljóst að það hafi verið pólitískt ómögulegt að þessir 15 milljarðar færu eingöngu í það eina mannvirki. Ég á ekki von á að um það geti verið pólitísk samstaða hér á Alþingi.

Það er hins vegar mjög mikilvægt, og ég vona að hv. þingmenn séu sammála því, að lokið verði við þetta mannvirki og unnið í því en hv. þingmenn virðast ekki hafa neina þolinmæði í að farið sé yfir málin. Ég veit ekki hvernig þeir eru vanir að vinna, ég átta mig ekki á því. Við erum nýlega búin að taka ákvörðun um að gera þessa tillögu og síðan er verið að vinna í málinu. Eigum við ekki að sjá hvað kemur út úr því? Ég hef ýmsar hugmyndir sjálfur og ýmsir aðrir um hvernig megi leysa það og ég tel að það sé ekki orðið nægilega þroskað til að ræða það frekar á Alþingi, það getum við gert síðar. En ég vona þá að hv. þingmenn hafi einhverjar hugmyndir um það.