132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:07]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi það þannig, þegar þetta frumvarp var lagt fram, að það yrði skuldbindandi fyrir ríkisvaldið inn í framtíðina, þ.e. að um lagafrumvarp væri að ræða um ráðstöfun á tilteknum fjármunum sem væntanlega yrðu sérgreindir á einhvern hátt. En það segir, með leyfi forseta, í athugasemdum Fjárlagaskrifstofu hér í lokin:

„Fyrirhugað er að sækja um útgjaldaheimildir í fjáraukalögum 2005 og fjárlögum áranna 2007–2012 í samræmi við frumvarpið, eins og það verður að lögum.“

Skilningurinn á því hvort um lög sé að ræða eða einhvers konar yfirlýsingu skiptir verulegu máli. Skilningur hæstv. forsætisráðherra er sá, ef ég skil hann rétt, að hér sé um skuldbindandi yfirlýsingu þingsins að ræða. (Forseti hringir.) Það skiptir miklu máli fyrir almenning í landinu og þær væntingar sem hann getur (Forseti hringir.) borið til þessara hugmynda.