132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:11]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hafi hv. þingmaður verið í salnum þegar ég hóf mál mitt ætti hún að hafa heyrt mig lýsa því að öll þessi verkefni væru til bóta. Ég sagði að um væri að ræða framfarir á ýmsum sviðum og ég gerði á engan hátt lítið úr þessu verkefni. Ég benti hins vegar á að það skipti máli, samkvæmt þeim hugmyndum sem liggja fyrir, hvort menn mundu þurfa að greiða sérstakt gjald fyrir að koma til borgarinnar eftir því hvort þeir koma norðan og vestan að eða annars staðar frá. Mér fannst það mjög athyglisvert en nefndi einnig að ég saknaði þess að sjá ekki hugmyndir um framlög í að tvöfalda Suðurlandsveg. Ég gerði því ekki lítið úr þeim framkvæmdum sem hugmyndin er að ráðast í.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort eðlilegt væri að menn tækju svona ákvarðanir, að það þing sem nú situr skuli ráðstafa fjármunum til svo langs tíma. Við hefðum alveg getað hugsað okkur að þessir fjármunir (Forseti hringir.) hefðu verið lagðir inn í Seðlabankann (Forseti hringir.) en ég skil vel að þingflokkur eins og Framsóknarflokkurinn, sem er á taugum, (Forseti hringir.) þurfi náttúrlega að reyna að kaupa sér einhver atkvæði.