132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:12]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er enginn að fara á taugum nema þá kannski hv. þingmaður Samfylkingarinnar vegna þess að hann virðist ekki hafa það alveg á hreinu hvort við á hinu háa Alþingi höfum umboð til þess að ráðstafa fénu eða ekki. Ég tel að við höfum umboð til að ráðstafa fé úr ríkissjóði. En eins og fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra er hægt að breyta lögum eftir á.

Hv. þingmaður Lúðvík Bergvinsson talaði um væntingar og að við værum hér að ræða um frumvarp til laga. Lögmætar væntingar geta einnig skapast þótt við séum að ræða þingsályktunartillögu. Það er því alveg ljóst að við höfum umboð til þessa. Mér finnst hafa verið farið mjög faglega í þetta mál en mér finnst erfitt að átta mig á þessari gagnrýni Samfylkingarinnar sem ætlar greinilega að búa hér til einhvern vafa um formsatriði sem liggja skýrt fyrir.