132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:18]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur ekki gert ágreining um hvernig söluandvirði Símans verði varið. Nokkur sátt virðist vera um það hérna í þingsalnum að skynsamlega hafi verið að farið.

Hins vegar gerir hann athugasemdir við aðferðafræðina og þar fannst mér aðeins koma fram sérkennilegur málflutningur hv. þingmanns. Annars vegar dregur hann í efa þá aðferðafræði sem lagt er upp með, að gera langtímaáætlanir um hvernig söluandvirði Símans yrði varið, en hins vegar vill hann gera nákvæma áætlun um hvernig á að verja fjármunum Nýsköpunarsjóðsins. Ég velti því fyrir mér hvaða aðferðafræði hann vill nota. Vill hann langtímaáætlanir eður ei? Eða vill hann gera þetta svona nákvæmlega niðurnjörvað eins og hann leggur til varðandi Nýsköpunarsjóðinn?