132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:22]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Hæstv. forseti. Það er kannski ástæða til að byrja á að rifja það upp að þetta frumvarp sem hér er til umfjöllunar í dag er auðvitað niðurstaðan úr miklu og á köflum umdeildu ferli um sölu Símans. Eins og ég sagði í umræðum í gær man ég ekki betur en að hér í þessum sal hafi töluvert verið tekist á um það mál þó að menn vilji nú gjarnan komast í það með ríkisstjórninni að skipta afrakstrinum af þessu máli, þ.e. söluandvirðinu. Það er alveg ljóst að engu söluandvirði væri hér að skipta ef Vinstri grænir, Frjálslyndi flokkurinn eða Samfylkingin hefðu haft sitt fram hvað varðar hina almennu stefnu um að einkavæða Símann.

Úr því sem komið er skiptir náttúrlega engu máli hvaða skoðanir menn höfðu á þessu hér á fyrri tíð. Nú liggur það fyrir að þessi sala hefur átt sér stað. Hún tókst óumdeilanlega afar vel og söluandvirðið varð síst minna en menn gátu gert sér vonir um eða ríflega 1 milljarður Bandaríkjadollara í erlendri mynt. Þar af var sirka helmingurinn greiddur í erlendri mynt, dollurum og evrum, en helmingurinn í íslenskum krónum.

Frumvarpið sem hér er til umræðu er nýmæli. Það er nýmæli að fara þá leið sem hér er lögð til með frumvarpinu, þ.e. að lögbinda tiltekna ráðstöfun á söluandvirði einkavædds fyrirtækis með þessum hætti nokkur ár fram í tímann. Það er sem sagt verið að lögbinda þetta en auðvitað liggur það í hlutarins eðli og er í samræmi við lögin um fjárreiður ríkisins að afla þarf fjárheimilda síðan á hverju einasta ári í fjárlögum til að geta reitt fram fé samkvæmt ákvæðum þessara laga.

Hins vegar er þetta nú ekki meira nýmæli en svo, eins og við þingmenn hljótum allir að þekkja, að það eru fjöldamörg lög í gildi sem kveða á um tiltekin útgjöld til tiltekinna mála. Það eru svokölluð lögbundin útgjöld sem við erum að reyna að fullnægja hér á hverju einasta ári í fjárlögum hvers árs og í þeirri fjárlagavinnu sem við innum hér af hendi. En það þýðir ekki að þingið geti ekki breytt ákvæðum slíkra laga eða eftir atvikum þessara laga þegar þau verða samþykkt, sem vonandi verður nú fljótlega, vegna þess að þingið hefur sjálft síðasta orðið og það er hægt að breyta öllum lögum ef þingið gerir það rétt. Ef nýr þingmeirihluti myndast nú eftir næstu kosningar (Gripið fram í: Vonandi.) — sem verður vonandi ekki — þá getur hann auðvitað ef hann hefur aðra stefnu og vill ekki ráðast í þær framkvæmdir sem hér eru lagðar til tekið sig til og breytt því. Það er þá ný pólitísk ákvörðun og ný pólitísk stefnumótun. En þá ganga menn sem sagt gegn því sem er að finna í þessu frumvarpi ef þeir ákveða eitthvað slíkt og hlýtur þá að byggjast á því að þeir séu andvígir því sem er í frumvarpinu og vilji fara einhverjar aðrar leiðir.

Þetta er nýmæli, það er alveg rétt. Auðvitað kom til greina eða menn veltu fyrir sér hvort aðrar leiðir væru færar í þessu. En þá verða menn að hafa í huga hvað stendur í fjárreiðulögunum um málefni sem þessi og það er náttúrlega ófrávíkjanlegt og frá því verður ekkert komist að söluhagnaðurinn af Landssímanum á þessu ári verður bókfærður sem tekjur ríkissjóðs á þessu ári. Þá standa menn frammi fyrir því að gríðarlega miklar tekjur koma í ríkissjóð á þessu ári af umræddu máli og ekki er ætlunin að ráðstafa þeim öllum á þessu ári. Hins vegar er meiningin að gera það með tilteknum hætti yfir þetta árabil. Afgangurinn af ríkissjóði, að teknu tilliti til þessara sölutekna, mun verða gríðarlega mikill og meiri en nokkurn tíma hefur sést þegar hann bætist ofan á þann mikla afgang sem verður á ríkissjóði umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir á árinu 2005.

Ekki var ráðlegt að ráðstafa öllum söluhagnaðinum í fjáraukalögum þessa árs til að jafna þessi met heldur var valin sú leið að gera það með sérstökum lögum um hvernig þessum viðbótartekjum ársins 2005 yrði ráðstafað en þá auðvitað samkvæmt fjárheimildum í fjárlögum viðkomandi ára. Við erum sem sagt með þá áætlun — eins og koma mun fram í fjáraukalagafrumvarpinu sem kemur fram í dag eða á morgun — að ráðstafa í ár 2.500 milljónum af þessum söluhagnaði á árinu 2005 samkvæmt þeirri áætlun sem liggur fyrir hér í frumvarpinu, engin útgjöld verða á árinu 2006, vegna þess að þá eru umsvif og framkvæmdir í hámarki í þjóðfélaginu, en síðan frá og með árinu 2007 þannig þó að hæstar fjárveitingar verði á árunum 2008 og 2009 og síðan allt fram til ársins 2012.

Þannig er þetta mál hugsað og hugsað sem svo að það liggi alveg fyrir frá byrjun í hvað peningarnir úr einkavæðingu Símans verða notaðir vegna þess að þetta er allt fært í sama sjóðinn og þá er ekki hægt að gera greinarmun á því hvaðan tilteknir peningar koma og í hvað þeir fara. Það var nú það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson velti fyrir sér áðan: Verður þessu haldið eitthvað aðgreindu? Það er ekki hægt samkvæmt fjárreiðulögunum, þetta fer allt í sama sjóðinn, sama pottinn. Ef menn vilja geta haldið utan um í hvað þessir tilteknu peningar hafa farið er ekki hægt að gera það öðruvísi en með einhverjum svona hætti.

Það er hins vegar nauðsynlegt að gæta að því, og það er athyglisvert, að ríkissjóður verður að greiða sjálfum sér fjármagnstekjuskatt af þeim söluhagnaði sem hér er um að ræða. Ríkissjóður mun greiða 5 komma eitthvað milljarða í fjármagnstekjuskatt vegna þessa máls og það dregst frá söluhagnaðinum sem kemur að sjálfsögðu inn í ríkissjóð sem skatttekjur. Þá gerist það sem ég veit að hv. þingmenn hér í hliðarsal hafa mikinn áhuga á, ef samfylkingarþingmennirnir í hliðarsalnum mundu nú fylgjast með þessu atriði sérstaklega og kannski ekki síst hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og hv. þm. Einar Már Sigurðarson. Það sem gerist er það að þegar ríkissjóður samkvæmt fjárreiðulögunum verður að greiða sjálfum sér fjármagnstekjuskatt upp á ríflega 5 milljarða, tæplega 6 milljarða, sem dregur úr söluandvirðinu sem bókfærist sem tekjur en kemur inn sem skatttekjur annars staðar í frumvarpinu, hvað gerist þá? Heildarskatttekjur ríkisins aukast. Og hvað gerist þá? Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fær 120 milljónir í sinn hlut. (Gripið fram í: Ekki veitir nú af.) Þannig að ég þykist vita að þeir sem hafa borið hag sveitarfélaganna sérstaklega fyrir brjósti munu fagna því að þessi aðgerð, sem þeir sumir hverjir hafa haft mikið horn í síðu gagnvart skuli verða til þess að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái 120 milljónir í viðbótarráðstöfunarfé. Er það ekki jákvætt hv. þm. Jón Bjarnason? (JBjarn: Það má nú …) Það má nú deila um það. (JBjarn: Það er gott hjá þeim, það er náttúrlega …) Það er nefnilega það.

Það kemur líka upp úr kafinu í þessu máli þegar það er krufið til mergjar að vegna þess að hluti af þessu breytist yfir í skatttekjur fá þeir sem eru með fasta áskrift að skatttekjum ríkissjóðs þarna aukaávinning eins og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. (Gripið fram í: Er ráðherrann ekki ánægður með það?) Jú, ég er bara mjög ánægður með það og gleðst yfir því.

Hins vegar er það líka svo þegar kemur svona aukabúhnykkur í ríkissjóð að þá vakna ýmsar spurningar um lánastýringu og um tilfærslu af ýmsu tagi hvað varðar lán og umhugsun um lán ríkissjóðs innan lands og utan. Erlendi hlutinn af þeim peningum sem þarna komu til ráðstöfunar fór beint í að greiða upp erlend lán, ýmist þau lán sem hægt var að borga strax eða liggur inni á bankareikningum ríkissjóðs fyrir utan íslenska hagkerfið og verður nýttur við fyrsta tækifæri til að lækka skuldir í útlöndum. Þar með mun það fjármagn ekki hafa nein óheppileg áhrif hér innan lands.

Innlendi hlutinn fer líka í lánastýringu á vegum ríkisins vegna þess að þessum peningum verður ekki ráðstafað öllum samtímis. Það liggur í eðli þessa frumvarps að verið er að skipta þessum peningum á mörg ár fram í tímann en greiðslan er komin, greiðslan kom 6. september. Hún var fyrst lögð inn á reikning í Seðlabankanum og henni verður ráðstafað eftir hendinni. En til þess að tryggja það að ríkissjóður fengi örugglega bestu ávöxtun af þessum aurum var samið við Seðlabankann um að kaupa af honum skuldabréf, fjögur talsins reyndar, með mismunandi gjalddögum. Ríkissjóður lánar því Seðlabankanum sem er líka nýjung, áður var það alltaf í hina áttina. Ríkissjóður lánar Seðlabankanum með tilteknum umsömdum vöxtum. Þeir eru hálfu prósenti undir því sem Seðlabankinn fær sjálfur í vexti af endurkræfum lánum og þar með er búið að koma þessum peningum tryggilega fyrir í góðri ávöxtun án þess að það hafi óheppileg áhrif hér á lánamarkaði eða í efnahagsmálunum. Þetta er líka nýjung.

Menn hafa verið að fikra sig áfram með ýmis nýmæli í tengslum við þetta mál, enda er það náttúrlega óvenjulegt að því leyti til að það hefur aldrei gerst áður að svona stór fjárupphæð komi inn í ríkissjóð til að sýsla með og er náttúrlega skylda allra, bæði ríkisstjórnarinnar og þingsins, að reyna að gera það með eins vitrænum hætti og nokkur kostur er. Þetta frumvarp er auðvitað hluti af því að búa þannig um hnútana að þetta gríðarlega mikla fjármagn nýtist með sem skynsamlegustum hætti bæði til skemmri og lengri tíma. Þessar lánastýringaraðgerðir eru til skemmri tíma hér innan lands, lengri tíma hvað varðar uppgreiðslu erlendra lána, en síðan er ráðstöfunin á fjármunum samkvæmt þessu frumvarpi auðvitað lengri tíma ráðstöfun. Þar með gengur þetta mál alveg upp.

Það þarf að hafa í huga þegar kemur að því að veita fé samkvæmt þessu frumvarpi eða lögum, þegar það verður, vonandi, orðið að lögum, að þær upphæðir sem koma inn í fjárlög áranna 2007–2012 á grundvelli þessara laga eru fjárveitingar sem þegar er búið að fjármagna með þessum peningum. En það mun bara ekki sjást í fjárlögum þeirra ára, það mun auka útgjöldin án þess að tekjur séu á móti í þeim fjárlögum, en það er þá búið að bóka það inni í fjáraukalögum ársins 2005. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þar að kemur vegna þess að fjárreiður okkar eru þannig að það mun ekki sjást á viðkomandi ári, tekjurnar koma núna, útgjöldin koma seinna. Þetta verða menn að hafa í huga og þess vegna er líka mjög gott, og reyndar nauðsynlegt að mínum dómi, að þetta frumvarp liggi fyrir sem lög til að það sé alveg til bókar fært hver vilji Alþingis hefur verið og að geirnegla það, ef svo mætti segja, að þessar fjárveitingar skili sér vegna þess að búið er að fjármagna það með þessari einkavæðingu.

Ég ætla ekki að vekja máls á einstökum atriðum í frumvarpinu vegna þess að ég tel að þess þurfi ekki, það skýrir sig sjálft og forsætisráðherra hefur farið rækilega yfir það í framsögu sinni hvað einstök atriði snúast um. Auðvitað er hægur vandi að deila á einstakar fjárveitingar og segja að þær ættu að vera meiri eða minni. Aðalatriðið er að ég held að allir séu meira og minna sammála um að hér séu allt saman þjóðþrifamál á ferðinni og þau eru að koma til skjalanna núna með öruggari hætti, með meiri vissu og fyrr en verið hefði ef ekki hefði verið ráðist í einkavæðingu Símans. Hefði nokkur getað fullyrt það hér að við hefðum getað útvegað peninga í nýtt þjóðarsjúkrahús frá og með árinu 2008 eða 2009 ef ekki hefði komið til sala Símans? Nei, það hefði enginn getað fullyrt og það hefðu verið eilíf fjárlagaátök um slíkar stórar fjárveitingar á næstu árum eins og við þekkjum vel. Nú hefur verið búið svo um hnútana í þessu máli að þarna er búið að tryggja fjármagn til þessara miklu hagsmunamála, til þessara stóru verkefna sem við hefðum hvort eð er þurft að ráðast í fyrr eða síðar. Vafalaust ekki eins fljótt og nú er gert ráð fyrir ef við hefðum ekki fengið þessa peninga og vafalaust með miklum fjárhagslegum harmkvælum þegar það hefði komið að því að skaffa fjármagn og fjárveitingar til þessara mála.