132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[15:40]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Ég fagna því að heyra það, virðulegur forseti, að þetta sé óháð og að þetta sé nýtt fé vegna þess að það var líka skilningur minn og rétt að það komi fram á hinu háa Alþingi þannig að það sé skýrt.

Það er auðvitað svo að vegaframkvæmdir fyrir árin 2004, 2005 og 2006 voru skornar niður um 6 milljarða, það hefur komið fram í samgönguáætlun og hefur verið rætt á hinu háa Alþingi.

Virðulegi forseti. Þó að það sé ekki beinlínis tengt þessu tók ég eftir að hæstv. utanríkisráðherra, fyrrv. fjármálaráðherra, talaði um að þarna væri ríkið í raun og veru að lána Seðlabankanum fé og fá fyrir það vexti sem væri hálfu prósenti minna en eitthvað sem ég tók ekki nákvæmlega eftir hvað var. Þó svo að við séum hér að ræða annan þátt er þetta engu að síður þáttur sem hefur haft mjög mikil áhrif á efnahagslífið og hefur komið fram hér að er aðalverðbólguvaldurinn, þ.e. miklar lánveitingar til endurfjármögnunar lána og annars slíks í húsnæðiskerfinu. Hefði kannski verið hægt að nota þessa aðferð fyrir það mikla fé sem kom inn sem inngreiðslufé til Íbúðalánasjóðs, að setja það svona í Seðlabankann í staðinn fyrir að Íbúðalánasjóður hleypti því öllu út á markaðinn með því verðbólguskoti sem orðið hefur?