132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Athugasemd.

[10:37]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Herra forseti. Það er mjög alvarlegt ef það er lyfjaskortur í landinu og lyf skortir við alvarlegum sjúkdómum og að lyf séu ekki til sem eru þó skráð og eiga að vera til, sérstaklega í þeim tilvikum þegar um mjög alvarlega sjúkdóma er að ræða. Það er mjög óþægilegt bæði fyrir sjúklinga og ekki síður fyrir lækna og lyfjafræðinga þegar sú staða kemur upp.

Það er mjög gott til þess að vita að hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar að taka á þessum málum og ég er sannfærð um að innflytjendur og lyfjaheildsalar munu sannarlega gera það líka því að þeirra er hagurinn að til séu næg lyf hér á landi og að þeir uppfyllti þær kröfur og þær reglugerðir sem þeim ber að fara eftir. Til þeirra eru gerðar miklar kröfur og við ætlumst til þess að þeir standi undir þeim.