132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Athugasemd.

[10:38]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur kærlega fyrir að taka þetta mál upp á þingi. Þær fréttir sem við höfum fengið að undanförnu um að ákveðin lyf, svo sem krabbameinslyf barna, séu ekki fáanleg eru auðvitað hreint út sláandi. Nú hefur kvörtunum rignt yfir landlækni vegna þessa og hefur landlæknir bent á að skortur á skráðum lyfjum sé brot á lyfjalögum. Landlæknir hefur einnig sagt að ekki eigi að vera neinar undanþágur hvað þetta varðar og að lögin eigi að skerpa.

Ég vil sömuleiðis fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra lítur þetta mál mjög alvarlegum augum eins og hann sagði í ræðu sinni. Ég fagna því einnig að hann ætlar að halda fund um málið. En ég vil ítreka spurningar fyrirspyrjanda um hvort hann sé reiðubúinn á þessari stundu að segja hvort hann ætli að ráðast í lagabreytingar eða skerpa á lögunum því þetta mál þarf að vera klárt og þessi staða á ekki að koma upp í okkar samfélagi. Ég vil því gera þá spurningu fyrirspyrjanda að minni hvort hæstv. ráðherra sé tilbúinn að fara í nauðsynlegar lagabreytingar eða a.m.k. skerpa á þeim lögum sem landlæknir telur að þurfi að skerpa á sérstaklega.