132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:24]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þarna sé einmitt alvara málsins, að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn virðist stinga höfðinu í sandinn. Ráðherranum finnst allt í lagi þó að gengisvísitalan sveiflist um tugi prósenta innan árs og frá áætluðum gildum sem ríkisstjórnin hefur gengið út frá við sína fjárlagagerð. Gerir ráðherrann sér ekki grein fyrir hvaða áhrif það hefur á útflutningsatvinnuvegina? Mér finnst hann tala af mikilli léttúð. Útflutningsatvinnuvegirnir eru að kikna undan þessu háa gengi og hæstv. ráðherra finnst það vera allt í lagi. Spárnar séu bara eins og tölvuleikur.

Ráðherrann minntist ítrekað á að miklar breytingar ættu eftir að verða hér aftur og viðsnúningur þegar stóriðjuframkvæmdunum, sem nú standa yfir, lýkur 2007. Allir á fjármálamarkaði og atvinnumarkaði spyrja: Er það pottþétt að stóriðjuframkvæmdunum ljúki þá, að ekki verði ráðist í frekari stóriðjuframkvæmdir, ekki skrifað undir samninga eða undirbúnar aðrar stóriðjuframkvæmdir þegar þeim lýkur 2007? Við það eru öll viðmið sett. Meira að segja í ræðu hæstv. fjármálaráðherra hér áðan setur hann öll viðmið við það þegar núverandi stóriðjuframkvæmdum lýkur.

Er ráðherra reiðubúinn að gefa hér yfirlýsingu um að þá verði sagt stopp, a.m.k. til næstu tíu ára? Það held ég að skipti miklu máli, herra forseti, fyrir trúverðugleika frumvarpsins sem við erum að ræða.