132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:25]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það séu fáir sem gera sér jafn vel grein fyrir því og ég hversu erfiðar gengissveiflur geta verið fyrir útflutningsatvinnugreinarnar. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvar hv. þingmaður hefur verið undanfarin ár. Við búum í markaðsþjóðfélagi. Gengið og vextir ráðast á markaði.

Við gætum auðvitað haft þetta öðruvísi. Við gætum auðvitað verið með miðstýrðar ákvarðanir og tekið ákvarðanir um gengisstigið og vextina miðstýrt hjá ríkisstjórninni. Við gætum haft það þannig. En það hefur einfaldlega verið niðurstaða allra þeirra sem stýra efnahagsmálum í hinum vestræna heimi að það sé betra að láta þessa hluti ráðast á markaði. Gengissveiflur íslensku krónunnar hafa ekkert verið meiri en aðrir gjaldmiðlar hafa þurft að þola.

Mér leiðist alltaf að þurfa að hryggja menn með svörum mínum en ég verð að hryggja hv. þingmann með því að það eru vonir til þess að stóriðjuframkvæmdir haldi áfram. Það er meira að segja gerð grein fyrir því í heftinu Þjóðarbúskapurinn. Það er ekki frágengið en það eru vonir til þess. Þá munu þær framkvæmdir halda áfram (Gripið fram í.) og þar af leiðandi er ég langt frá því að vera tilbúinn til þess að gefa neina yfirlýsingu um það að ekki verði um frekari stóriðjuframkvæmdir í framtíðinni að ræða. En eins og ég segi, mér þykir leiðinlegt að þurfa að hryggja hv. þingmann með þessu, því að ég veit að hann veit ekkert betra en stöðnun í efnahagsmálum.