132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:12]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar ræðu hans. Hún var málefnaleg eins og hans er vandi í þinginu. Um leið verð ég að lýsa nokkrum vonbrigðum með hana því að efni hennar og kjarni var í raun að blessa það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram.

Af orðum formanns fjárlaganefndar verður ekki annað dregið en að frumvarpið verði að mestu afgreitt óbreytt í gegnum nefndina, a.m.k. gætti í engu gagnrýninnar afstöðu til einstakra þátta frumvarpsins eða sjálfstæðrar stefnu gagnvart því af hálfu formanns fjárlaganefndar Alþingis. Það veldur mér áhyggjum því að ég held að ríkisstjórninni veiti ekki af aðhaldi frá fjárlaganefnd og þinginu, ekki síst frá samherjum ráðherranna í þinginu, sem þó hefur stundum örlað á hjá varaformanni fjárlaganefndar.

En fyrst háttvirtur formaður fjárlaganefndar er svona ánægður með frumvarpið og telur aðhaldið í því nóg er óhjákvæmilegt að spyrja hann eins og hæstv. fjármálaráðherra: Finnst honum sú forsenda sennileg, sem þetta frumvarp er byggð á, að við þurfum minna aðhald í ríkisfjármálum á næsta ári í mestu framkvæmdum Íslandssögunnar þegar tugir milljarða hafa spýst inn í hagkerfið með erlendum innspýtingum og einkaneysla er í hámarki? Finnst honum sennilegt að við þurfum minna aðhald í ríkisfjármálunum en við þurftum á að halda árin 1999 og 2000, þegar ríkisstjórnin missti tökin á verðbólgunni og hún fór í 9% með þeirri afleiðingu að skuldir heimilanna hækkuðu um tugmilljarða króna?