132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi frú forseti. Hér er til 1. umr. frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2006 og hæstv. fjármálaráðherra hefur mælt fyrir því. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar og fjárlög sýna í hnotskurn hver stefna ríkisstjórnar er á hverjum tíma. Þar kemur fram hvernig tekna skal aflað, áætlun um tekjur, hvernig tekjuöflun ríkissjóðs er skipt niður á þegnana, á atvinnulífið, á velferðarkerfið, í fjárfestingar o.s.frv.

Í umræðunni um fjárlögin og meðferð þeirra birtist með skýrum hætti munurinn á stefnu stjórnmálaflokkanna í þjóðfélagsmálum eins og við höfum heyrt í dag. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að íslenskt samfélag eigi að einkennast af jöfnuði, frelsi, fjölbreytni og ríkri samkennd. Framtíðarsýn okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er sú að allir eigi að fá að njóta sín á eigin forsendum í samfélagi þar sem samhjálp, virðing og velferð ríkir. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill hverfa frá núverandi áherslu á auðhyggjusamfélag þar sem efnahagslegur mælikvarði er lagður á allt og alla. Stefna núverandi stjórnvalda leiðir þjóðfélag okkar nú hratt á hættulegri braut til aukinnar einhæfni í atvinnulífi með ofuráherslum á risavaxnar töfralausnir sem passa sjaldan í okkar fámenna og dreifbýla landi. Við leggjum áherslu á að náttúra, velferð og menning eigi að fá jafnt vægi og efnahagsleg rök. Lausnir á vandamálum jarðarinnar verða aðeins fundnar með því að jafnt sé stillt, jafnt tillit sé tekið til félagslegra, efnahagslegra, lífrænna og menningarlegra þátta. Sé slíkt haft að leiðarljósi, sé unnið eftir þeirri sýn munu sveit og borg blómgast á eigin forsendum. Þar mun verða fjölbreytt mannlíf, fjölbreytt atvinnulíf og fjölbreytt og vistvæn náttúra.

Lögmál um framboð og eftirspurn skýrir ekki eitt og sér óendanlegan fjölbreytileika í tilveru okkar. Það er alveg hárrétt að í efnahagslegu tilliti hefur Íslendingum gengið um margt í haginn á síðustu árum og uppgangur verið talsverður og reyndar mikill á sumum sviðum. En misskipting og vaxandi bil er á milli fátækra og ríkra. Það er mikið áhyggjuefni. Við höfum þungar áhyggjur. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum þungar áhyggjur af aukinni misskiptingu sem er að verða í tekjum og kjörum fólks í landinu. Við höfum áhyggjur af aukinni fákeppni, reyndar einokun á mikilvægum sviðum, í atvinnulífi, í velferðarþjónustu, í almannaþjónustunni. Nýjasta dæmið er sala Símans sem á stórum hluta landsins fer nú með einokunarvald í þeirri mikilvægu almannaþjónustu sem fjarskiptin eru.

Við höfum horft upp á gríðarlega auðsöfnun. Við sjáum blöð og tímarit sem sýna hóp Íslendinga sem státa sig af því að vera komnir í hóp ríkustu manna heims með tilheyrandi velsæld og lífsstíl. Ég er ekki á móti því að fólk verði ríkt. En ég vil að jöfnuður ríki. Það er ekki sanngjarnt að sumir verði ríkir og ríkari en aðrir en þeir fátæku verði fátækari. Það er jöfnuður sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum áherslu á.

Á vísnakvöldi á hagyrðingamóti á Hólmavík 30. júní sl. var ort um stjórnarfarið. Aðalsteinn Valdimarsson frá Strandseljum í Ögursveit komst svo að orði um stefnu stjórnvalda, með leyfi forseta:

Margur enn af ágirnd kvelst

ekki lífskjör jafnast.

Flestallt sem að fémætt telst

á fáar hendur safnast.

Því miður, frú forseti, blasir þetta við mörgum. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum áherslu á að skattheimtunni sé skipt með þeim hætti að þeir borgi mest til samfélagsins sem hafa mesta burði til þess. Þegar við ráðstöfum skatttekjum ríkissjóðs þá ráðstöfum við þeim líka þannig að þær rétti kjör, hag og stöðu þeirra sem ekki hafa aðstöðu til þess að hrifsa til sín verðmæti til jafns við aðra. Við leggjum áherslu á að skattkerfinu sé beitt til jafnaðar til að standa undir öflugri velferðarþjónustu. Það er á grunni þeirra forsendna sem ég í þessari ræðu legg mat á og skoða fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem hér hefur verið mælt fyrir.

Flestallar tölur í þessu fjárlagafrumvarpi hafa verið margendurteknar í samfélaginu og því kannski ekki nein sérstök ástæða til þess að rekja þær. En við skulum velta því fyrir okkur hverjir eru stærstu atburðirnir á þessu ári sem snerta samfélagið, atvinnulífið, fjárhag, stöðugleika — einmitt stöðugleikann því hann byggist á öflugu atvinnulífi og á jafnræði milli þegnanna hvar sem þeir búa á landinu.

Markaðsvæðing raforkukerfisins var eitt af því sem hóf innreið sína í upphafi árs. Leiðir ríkisstjórnarinnar í því að einkavæða og selja raforku hafa verið nokkrar og raforkufyrirtækin samkvæmt yfirlýsingu hæstv. iðnaðarráðherra sem hann gaf á síðasta vetri. Hverjar eru afleiðingarnar? Jú, við höfum fengið inn á borð til okkar í fjárlaganefnd sveitarstjórnarmenn sem greina okkur frá hvernig rekstur atvinnulífs og mannlífs gengur þar. Allt gengur vel. Ég minnist þess að sveitarstjórin á Súðavík sagði að bara breytingin á raforkuumhverfinu nú í byrjun árs hafi orðið til þess að raforkukostnaður við rækjuverksmiðjuna á ári óx um 2–3 millj. kr. og var það þó atvinnugrein sem ekki hafði burði til þess að fara að borga sérstaklega aukaskatt til markaðsvæðingar og einkavæðingaráforma ríkisstjórnarinnar.

Sveitarstjórinn á Þórshöfn kom og sagði nákvæmlega sömu sögu. Hækkun á rafmagni víða um land, sérstaklega í dreifbýlinu og minni þéttbýlisstöðum. Það þykir sérstök ástæða til þess að með raforkulagabreytingunum séu lagðar auknar álögur á atvinnulíf og fólk í þessum landshlutum.

Í andsvörum áðan við hæstv. ráðherra vorum við að ræða um gengið og gengismálin. Hæstv. sjávarútvegsráðherra gerði ekki mikið úr því þó að spár fjármálaráðherra varðandi gengið rættust ekki. Fyrir þetta ár var spáð gengisvísitölu upp á 120, 125 en reynist síðan rétt um 110 og árið er ekki liðið. En hvaða áhrif ætli þetta hafi á atvinnulífið, frú forseti?

Ágætur framkvæmdastjóri í fyrirtæki á Ísafirði sendi okkur tölvupóst nú á dögunum og ég hef fengið leyfi hjá honum til að vitna aðeins í þetta bréf. Þegar gengisvísitalan var komin niður í 103 og Seðlabankinn hækkaði stýrivextina upp í 10,25 þá fengum við þetta sent frá Elíasi Oddssyni sem er framkvæmdarstjóri fyrir Miðfell, með leyfi forseta:

„Nú get ég ekki orða bundist lengur yfir þeim hörmungum sem stefna Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar í peningamálum er að leiða yfir okkur hér fyrir vestan. Síðan fyrir ári hafa tekjur Miðfells hf. lækkað vegna gengisbreytinga sem nemur tæpum 4 milljónum króna, já, 4 milljónum á viku. Eins og gefur að skilja gengur þetta ekki til lengdar. Áhrif vaxtahækkana Seðlabankans hafa ekki skilað sér í því sem stefnt er að, lækkun verðbólgu, nema að litlu leyti en hefur komið af fullum þunga fram í hækkun krónunnar og þar með tekjurýrnun útflutningsatvinnuveganna.

Eins og fram hefur komið í fréttum er nú undanfarnar vikur búið að tilkynna um lokun tveggja til þriggja rækjuverksmiðja hér á Vestfjörðum. Auk þess hafa lokað nokkur fiskvinnsluhús. Allir sem í sjávarútvegi starfa eru á heljarþröm.

Þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi hækkað verulega frá því í júní sá Seðlabankinn sér ekki fært annað en að ganga þannig til verks að allar líkur eru á að atvinna hér í kjördæminu muni dragast verulega saman. Útsvarstekjur sveitarfélaga fara hratt lækkandi og munu ekki duga fyrir þeim rekstri sem nú er. Fólk er þegar farið að flytja héðan. Það er kannski þess vegna sem ríkisstjórnin boðar stóraukna byggingu leiguíbúða með niðurgreiddum vöxtum. Yfirlýsingar um stórframkvæmdir í eða við höfuðborgina auka enn á þetta misvægi.

Ég get ekki annað en mótmælt þeirri eignaupptöku sem nú fer fram. Verið er að ræna í stórum stíl eignum okkar sem á landsbyggðinni búum og færa til verslunar- og þjónustugreina á höfuðborgarsvæðinu.“

Ég held að þetta sé dæmigert hvernig atvinnugreinarnar úti um land, sem hafa staðið undir útflutningstekjunum, standa nú. Hæstv. fjármálaráðherra finnst þetta ekkert mál. Mér finnst þetta mál.

Hæstv. fjármálaráðherra rakti mjög ítarlega og lagði áherslu á áhrif stóriðjuframkvæmdanna á hagkerfið. Hann minntist á að eftir árið 2007 gæti orðið uppstytta á þeim erfiðleikum sem útflutningsgreinarnar búa við nú og gengisstefnan er hrjáð af ef þessum stóriðjuframkvæmdum linnti þá og atvinnulífið gæti farið að jafna sig og ná jafnvægi á ný.

Ég leyfi mér að vitna áfram til Vestfirðinga sem eru að upplifa hágengistefnuna, stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Jens Valdimarsson, framkvæmdastjóri Bílddælings, sagði í viðtali við Bæjarins besta 1. júní sl. þegar hann stóð frammi fyrir lokun eins stærsta fyrirtækis bæjarins, með leyfi forseta:

„Gengi krónunnar hefur styrkst mjög mikið að undanförnu vegna framkvæmda fyrir austan og það hefur veikt grundvöll fiskvinnslunnar. Það eru miklar væntingar til stóriðju og það fundum við á dögunum þegar umræða hófst um hugsanlega stóriðju á Suðurnesjum. Þá styrktist gengi krónunnar að nýju og því er sjávarútvegurinn og fólkið í sjávarbyggðunum að greiða herkostnaðinn af virkjunum og stóriðjuuppbyggingunni eystra.“

Engin úrlausn hefur enn fengist í atvinnumálunum á Bíldudal en það skiptir víst ekki miklu máli samkvæmt orðanna hljóðan hjá hæstv. fjármálaráðherra. Það er vitað að það eru einmitt gengismálin, staða gengisins sem skiptir máli fyrir stöðu útflutningsgreinanna og gengið kemur ekki að ofan, það kemur vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum.

Í greiningu Íslandsbanka, Þjóðarbúskapurinn fyrir árið 2005, segir svo, með leyfi forseta:

„Segja má að þær sveiflur í hagvexti sem við sjáum fram undan séu að meira eða minna leyti drifnar áfram beint og óbeint af breytingum í stóriðjufjárfestingum. […] Til viðbótar hinum beinu áhrifum fjárfestingarinnar á landsframleiðsluna hefur gjaldeyrisinnflæði vegna hennar orðið til þess að hækka gengi krónu, sem aftur hefur aukið neyslu almennings og innflutning. […] Ljóst er að hinar miklu fjárfestingar í stóriðju hafa að einhverju leyti verið á kostnað annarrar fjárfestingar í atvinnulífinu.“ — Það er hóflega til orða tekið, frú forseti. — „Einkum hafa útflutningsfyrirtæki haldið að sér höndum, og fréttir hafa undanfarið borist af því að bróðurpartur vaxtar ýmissa fyrirtækja af því tagi eigi sér nú stað erlendis. Er það nokkuð bagalegt í ljósi þess að mörg þessara fyrirtækja hafa skapað fjölda verðmætra starfa og aflað umtalsverðra útflutningstekna undanfarin ár. Gengisþróun krónu hefur aftur á móti verið þessum fyrirtækjum mótdræg síðastliðin missiri.“

Þegar Íslandsbanki leggur mat á hvert væri jafnvægisgengi krónunnar — krónunnar sem er nú á gengi líklega í kringum 103, milli 103 og 104 — þá segir í greiningu Íslandsbanka að jafnvægisgengið sé einhvers staðar á bilinu 130–135, sem væri þá um lengri tíma, og að við slíkt gengi skapaðist jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Við erum langt frá því. Við erum langt, langt frá því sem greiningardeild Íslandsbanka segir að sé forsenda fyrir að jafnvægi skapist í efnahagskerfinu. Og svo talar hæstv. ráðherrann um að það sé stöðugleiki. Seðlabankastjóri segir að það sé vaxandi óstöðugleiki og er hann þó að taka hógvært til orða.

Það vekur líka athygli, frú forseti, að það er minnst á aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum, 2 milljarða kr. niðurskurð til vegaframkvæmda. Í fyrra sáum við aðhaldsaðgerðir sem lutu að því að hækka skatta á sjúklingum, komugjöld á heilsugæslustöðvar og sjúkrahús. En hvar er nú borið niður? Jú, nú er borið niður á öryrkjum. Því er nú lýst í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu að menn hafi þungar áhyggjur af því að öryrkjum fjölgi og þeim öryrkjum fjölgi sem ekki geta sótt vinnu með eðlilegum hætti. Ástæða er til að hafa áhyggjur af því.

En hvernig mætir ríkisstjórnin þessum áhyggjum? Jú, með því að skera niður stuðning, bensínstyrk sem þessir sömu öryrkjar hafa fengið til að létta sér atvinnusóknina. Þar var punktur sem hægt var að skera niður, þar var hægt að hagræða. Þar er hægt að hagræða um 720 millj. kr., flutt að hluta til yfir á hækkun á tekjutryggingarauka, gott mál, en átti endilega að taka það af bensínpeningum öryrkjanna? Þarna er ríkissjóður að reyna að spara sér, krækja sér í milli 200 og 300 millj. kr. nettó eftir að búið er að draga frá tilfærslurnar milli öryrkjahópa. Þarna á sparnaðurinn að koma niður.

Sparnaðurinn á líka að koma niður í lyfjakostnaði ríkisins upp á 300 millj. kr. Og hvernig kemur það út? Jú, frú forseti, það þýðir hækkað lyfjaverð hjá sjúklingum. Þetta er sú leið sem ríkisstjórnin velur þegar hún beitir hagræðingu, setur kröfur um hagræðingu eða aðhald.

Frú forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Við teljum það eitt brýnasta verkefnið sem Alþingi stendur nú frammi fyrir að taka á þessum málum sameiginlega. Allir aðilar í samfélaginu með Seðlabankann í broddi fylkingar hafa bent á nauðsyn þess, allir aðrir en ríkisstjórnin. Allir aðrir aðilar viðurkenna að vandi sé á höndum (Forseti hringir.) og vilja sterkt og öflugt samráð. Það er megininntak tillögu okkar, frú forseti, (Forseti hringir.) að aðilar setjist nú saman (Forseti hringir.) og komi á efnahagslegum stöðugleika.