132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:46]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í upphafi máls vil ég óska nýkjörnum fjármálaráðherra velfarnaðar í starfi og vona að honum farnist vel. Það er auðvitað vandasamt að stýra fjármálum þjóðarinnar ekki síður en sjávarútveginum eins og ráðherra veit mætavel og sjálfsagt betur en ég en ég vona sem sagt ... (Gripið fram í.) ekki veit ég það svo ofboðslega gerla, hv. þingmaður.

Það eru nokkur atriði sem ég vil byrja á að gera að umræðuefni við 1. umr. um fjárlögin. Menn voru rétt áðan að skiptast á skoðunum um m.a. skattana og ég vil víkja að því í upphafi máls míns. Ég held að það sé mikil þörf á því að endurskoða stefnuna í skattamálunum, þó ég þykist vita að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin séu mér ekki sammála í því, en ég tel að sú útfærsla sem er í skattalækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar þjóni ekki þeim markmiðum að auka jöfnuð í þjóðfélaginu og þjóni ekki heldur nægilega þeim markmiðum að koma til móts við þá sem lægri tekjur hafa í þjóðfélaginu sem ég held að sé mjög nauðsynlegt í núverandi stöðu. Við vitum um mikla óánægju verkalýðshreyfingarinnar um hvernig verðlagsmál hafa þróast hér á landi og þegar verið er að tala um hér að meðaltalskaupmáttur hafi aukist verulega þá er það auðvitað þannig að meðaltalskaupmátturinn tekur mið af þeim launabreytingum sem hafa orðið í þjóðfélaginu og við vitum að þeir sem hafa hærri launin hafa verið að bæta við sig og það er launaskrið sums staðar í fyrirtækjum og einkum í þeim stöðum þar sem er greitt hærra kaupið.

Hinir föstu samningar verkalýðshreyfingarinnar hafa jafnan gert það að verkum að í slíku ástandi dregst kaupmáttur verkamanna meira saman en meðaltöl sýna og það er það sem er gerast hjá okkur nú er að verkalýðshreyfingin telur að umbjóðendur hennar sitji mjög verulega eftir og ég hygg að það sé rétt. Þess vegna er það að mínu mati mjög verðugt verkefni núverandi ríkisstjórnar að endurskoða skattastefnu sína, m.a. með það að markmiði að í stað þess að fara í flata prósentulækkun í skattinum upp á 1% á næsta ári og 2% árið 2007 þá hefði verið skoðað hvort ekki mætti koma til móts við sjónarmið á almennum vinnumarkaði og vera með öðruvísi útfærslu í þessum skattalækkunum. Það er mín skoðun og okkar í Frjálslynda flokknum að miklu nær hefði verið, sérstaklega eins og ástandið er nú að setja þá fjármuni sem gert er ráð fyrir í skattalækkunum á næsta ári, 4 milljarða kr. vegna 1% skattalækkunar yfir í persónuafsláttinn, og ég tel að með þeim 4 milljörðum hefði verið hægt að hækka persónuafsláttinn á bilinu 2.600–2.800 kr. á mánuði fyrir hvern einstakling og þá hefðum við verið að tala nokkurn veginn um sömu fjárhæð eða um 4 milljarða kr. vegna þess eins. Með sama hætti hefði auðvitað verið hægt að taka næstum því tvöfalt það í janúar 2007 ef menn hefðu valið þá leið. Ég hygg að verkalýðshreyfingin hefði metið það talsvert ef menn hefðu farið slíka leið í skattalagabreytingunum og þannig búið til meiri jöfnuð í þjóðfélaginu og það hefði örugglega komið þeim betur sem lægri hafa launin að fá þessa útfærslu en fá þessa prósentutengdu flötu skattalækkun. Að ég tali ekki um að við hefðum getað sleppt því að fella niður hátekjuskattinn og ekki að setja þá forgangsröðun á undir þessum kringumstæðum að lækka sérstaklega tekjuskatt hátekjufólksins. Svo er sett inn í fjárlagafrumvarpið að sjálfsagt sé að skerða svokallaðan bensínstyrk ellilífeyrisþega sem er gert á sama tíma og hátekjuskattur er felldur niður af þeim sem mestar hafa tekjurnar í þjóðfélaginu, bæði mér og öðrum. Ég tel að þetta sé röng forgangsröðun og þarna hefði átt að standa öðruvísi að verki. Slíkt hefði getað stuðlað að meiri sátt á vinnumarkaðnum og meiri horfum á því að við lendum ekki í verulegum deilum á vinnumarkaðnum eins og vissulega horfir til nú.

Í þessari 1. umr. hefur oft verið venjan að við reyndum að afla okkur upplýsinga og þegar ég var að lesa mér til í gögnunum um fjárlögin sem við fengum afhent í upphafi þings þá staldraði ég við eina setningu og ætla að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann geti gefið mér skýringu á henni en hún fjallar um afskriftir skattkrafna en þar er sagt að afskriftir skattkrafna verði 4 milljörðum kr. hærri en áætlað var í fjárlögunum. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. fjármálaráðherra færi nokkrum orðum um hvað þarna er að koma til, ef hann eða aðstoðarmenn hans hafa þær tölur hjá sér. Eru þetta sérstakar afleiðingar af gjaldþrotum fyrirtækja eða hvers vegna breytist þetta svona mikið á milli ára að það muni 4 milljörðum kr.? Það er þó nokkur upphæð ekki síst í ljósi þess að við erum að tala um að fjárlögin hækki um 8 milljarða. En ég vonast til að hæstv. fjármálaráðherra geti svarað þessari einföldu spurningu.

Mig langar einnig að ræða það sem kallað er þenslan í íslensku þjóðfélagi, í þessari 1. umr. um fjárlögin, það að menn geri t.d. ráðstafanir til að draga úr verklegum framkvæmdum, aðallega í vegagerð á næsta ári. Þar kæmu um 2 milljarðar til viðbótar við þá 2 milljarða sem dregið var úr á þessu ári og tæpa 2 milljarða sem dregið var úr á árinu þar á undan. Á þremur árum yrði dregið úr framkvæmdum samanlagt um 6 milljarða. Mér sýnist að á árunum 2007 og 2008 komi á móti að að bæta eigi tveimur milljörðum inn, á hvoru ári fyrir sig og síðan eigi símapeningarnir að bæta það upp sem á vantar, þ.e. að tvisvar sinnum verði skilað inn 2 milljörðum á árinu 2007 og 2008. En ég spyr um það sem út af stendur, þ.e. 1,8 milljarðinn sem áður var tekinn og mér sýnist að við séum að setja verulega fjármuni í ýmsar framkvæmdir í vegagerð með þeim peningum sem komu fyrir sölu Símans sem ég tel vera af hinu góða. En ég spyr um hvort það sé réttur skilningur hjá mér að aðeins komi 4 milljarðar til baka af því sem hefur verið skorið niður úr fjárlögum á undanförnum árum en viðbótin komi þá úr símapeningunum, að við séum þannig að fylla í þær tilfærslur sem við höfum staðið fyrir með fjármunum frá sölu Símans.

Ég hlýt líka að spyrja, hæstv. forseti, er það svo að þenslan sé um allt land? Búum við við þenslu alls staðar í landinu og er þá réttlætanlegt á þeim forsendum að beita niðurskurði m.a. í verklegum framkvæmdum í samgöngumálum hvar sem er á landinu að teknu tilliti til þess hvernig ástandið er? Mér finnst mikið skorta á að við séum að skoða ástandið á Íslandi eins og það raunverulega er. Það liggur fyrir að það er mikil þensla á suðvesturhorninu og að sú þensla er að teygja sig til nágrannabyggðanna, bæði upp á Vesturland og austur fyrir fjall, austur á Suðurland og meira að segja er talið að nokkur tilflutningur af fólki sé af höfuðborgarsvæðinu inn á svæði eins og Akranes og Borgarfjarðarsvæðið og síðan austur á Suðurland og til annarra nágrannasveitarfélaga eins og á Reykjanesskagann.

Það er samt verið að byggja mikið á Reykjavíkursvæðinu, mikil þensla er á íbúðamarkaði og mikið um að vera nánast í öllum byggðakjörnunum hér. En við sem erum þingmenn fyrir landsbyggðina nánast horfum á að á svæðum eins og t.d. í stórum hluta Norðvesturkjördæmis, þegar búið er að taka frá þennan suðvestasta hluta á Vesturlandinu og kannski í sumum tilfellum upp á Snæfellsnes, þá er því miður samdráttur í því sem eftir er af kjördæminu og við erum að horfa á lokun fyrirtækja sem þar eru burðarásar í atvinnulífi eins og rækjuverksmiðja og það er ekki ólíklegt, fyrrv. sjávarútvegsráðherra, að á öllu landinu verði á næsta ári innan við einn tugur af rækjuverksmiðjum sem verða í rekstri. Þar er mikið áfall og það sem meira er, að rækjuveiðarnar hafa líka dregist verulega saman og ekki eru miklar horfur á því miðað við núverandi orkukostnað að þær verði stundaðar af miklu kappi hér við land ef miðað er við það verð sem rækjuvinnslan getur greitt fyrir hráefnið. Og þá erum við komin í þá stöðu að vera með nánast allt hráefnið í rækjuverksmiðjurnar innflutt, innflutta iðnaðarrækju af miðum við Kanada, Grænland og Noreg. Og það er nú svo að þegar hráefnið er orðið iðnaðarvarningur sem fluttur er inn, þá er líka hægt að flytja hann til annarra landa þar sem kaupgjald er miklu lægra en hér.

Við höfum horft á það bæði með nokkrum áhyggjum að atvinnufyrirtæki væru að fara úr landi með starfsemi sína, iðnaðarfyrirtæki hafa verið að gera það, og við gætum horft á að rækjuiðnaðurinn að óbreyttum forsendum, gengisþróun og kostnaði, hverfi allur úr landinu. Á því er mikil hætta þegar rækjuveiðarnar eru nánast dottnar niður og aðföng vinnslunnar eru öll innflutt. Það er alveg eins hægt að senda lausvinnslurækju til Lettlands eins og til Íslands og vinna hana þar á verulega lægra kaupi.

Það eru mikil hættumerki, finnst mér, að því er varðar sjávarútveginn þegar við erum að ræða forsendur fjárlaganna næsta árið. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því miðað við þessar forsendur að verðmæti sjávarútvegs hér á landi aukist. Það er ekki bara vegna rækjunnar, við höfum líka skorið aðeins niður þorskinn og við vitum jú að þorskframleiðslan er langverðmætasti hlutinn af sjávarvöruframleiðslunni. Ætli þorskurinn sé ekki að gefa um 40% af botnfiskverðmætunum í útflutningi? Samanlagt sýnist mér því að margt bendi til þess að verðmæti úr sjávarútvegi aukist ekki. Þess vegna held ég að forsendurnar í fjárlögunum séu í raun og veru rangar að þessu leyti.

Á síðustu mánuðum hefur verð á almennum botnfiskafurðum hækkað. Það hefur í raun og veru bjargað því að fiskvinnslan hangir kannski enn á horriminni og getur rekið sig. Það er ekki líklegt að verð á botnfiskafurðum haldi áfram að hækka eftir stökkið sem það hefur tekið á undanförnum mánuðum, sem liggur sennilega á bilinu 8–9%. Það er því mjög óvarlegt að gera ráð fyrir því í forsendum fjárlaganna að þar verði áframhaldandi vöxtur í verðmætum á árinu 2006 og 2007, eins og mér sýnist að gert sé ráð fyrir. Það eru að vísu nokkur atriði í sjávarvöruframleiðslunni sem gefa mikla fjármuni, eins og síldarútvegurinn og vinnsla síldarinnar, og skiptir tugum prósenta í hærra afurðaverði.

Ég held að sjávarútvegurinn muni eiga mjög erfitt með að þola þá gengisstefnu sem rekin er hér á landi og dreg það reyndar í efa að við eigum að standa að málum eins og við gerum. Það verður ekki aftur tekið ef við missum sjávarútveginn að stórum hluta úr landi. Það eru engar líkur til þess að menn færi þá starfsemi aftur inn í landið ef þeir á annað borð hafa tekið ákvörðun um að færa hana út. Í útflutningi okkar er sjávarútvegur um 60%.

Gengismálin koma einnig afar illa við ferðaþjónustuna og allar líkur á því að þar verði tekjusamdráttur. Ferðamönnum hefur heldur fækkað frá því á síðasta ári og ef ferðamannaiðnaðurinn þarf að hækka verð á þjónustu verulega í erlendri mynt er hætt við að samdráttur verði enn meiri. Staðan er því að mörgu leyti mjög varasöm. Ég er ekki að halda því fram að stjórnvöld séu með auðvelt mál fyrir framan sig þegar við erum að tala um fjárlögin fyrir næsta ár og efnahagsstefnuna.

Mér finnst hins vegar ekki sjálfgefið, virðulegur forseti, að svæði eins og Norðvesturlandið, Norðurland og Norðausturland verði fyrir sérstökum niðurskurði í verklegum framkvæmdum. Ég er ekki viss um að það sé rétt stefna. Ég hef reyndar gert athugasemdir við það áður í sambandi við arðbærar framkvæmdir eins og vegagerð. Sá niðurskurður bitnar á svæðum þar sem samdráttur er í atvinnu og ég held að það megi nú ekki í bæta á þessum landsvæðum.

Það hefði verið fullt tilefni til þess að ræða hér aðeins um eldri borgara og stöðu þeirra. Ég verð að geyma mér það þangað til ég kem í þá seinni ræðu hér í dag. Ég hefði einnig viljað ræða um daggjaldastofnanir en get kannski komið því að í fyrirspurnarformi til ráðherrans núna í lok ræðu minnar. Ég hefði viljað að hæstv. ráðherra upplýsti mig um það hvernig greiðslur ganga frá ríki til hinna svokölluðu daggjaldastofnana. Ég nefni Sóltún, ég nefni DAS, ég nefni Grund og önnur dvalarheimili. Mér sýnist að mun hærri daggjöld séu greidd frá ríki til t.d. Sóltúns en hinna stofnananna sem ég nefndi. Hvernig er þetta fundið út og með hvaða rökum? Ég held að þarna sé um mikla mismunun að ræða. Takk fyrir, ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.