132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:08]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nú gefa hæstv. ráðherra kost á að koma hér aftur og reyna þá að svara líka fyrirspurn minni um daggjaldastofnanirnar sem ég spurði um áðan.

Varðandi þessa 1,8 milljarða á árinu 2004 minnist ég þess ekki, en það er auðvitað hægt að fletta því upp, að við höfum sérstaklega rætt um að sú tilfærsla væri óafturkræf, að hún ætti ekki að koma aftur inn í áætlanir um samgöngubætur hér á landi. En það kann að vera að ríkisstjórnin hafi skilið það svo á þeim tíma eða hafi þann skilning nú þegar símapeningarnir eru komnir inn í tillögur um þá fjármuni sem koma í vegagerð.

Hæstv. ráðherra orðaði það svo að þenslan væri ekki um allt land, eigum við ekki að orða það þannig að þenslan sé á vissum svæðum, hæstv. fjármálaráðherra. Hún er örugglega á Miðausturlandi í tengslum við stóriðjuuppbygginguna þar og verður þar sjálfsagt á næstu árum og vonandi þegar álversreksturinn kemst þar á skrið að þá verði þar áframhaldandi betri lífskjör en voru áður en þessar framkvæmdir voru hafnar. Síðan er hún auðvitað hér suðvestanlands. En eigum við ekki frekar að orða það þannig hvað varðar góðærið og þensluna, sem við sjáum greinilega á sumum svæðum landsins, og mikil umsvif, að aðrir landshlutar séu þá að gjalda þess vegna þess að við séum að taka niðurskurðinn heilt yfir en ekki að reyna að stýra honum eftir landsvæðum.