132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:11]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, Sóltún sérstakt dæmi. Hvar voru sjúklingarnir sem fóru á Sóltún áður en þeir fóru þangað? Voru þeir ekki á einhverjum stofnunum, jafnvel daggjaldastofnunum, þar sem kostnaðurinn fyrir dvöl þeirra af hendi ríkisins var greiddur með miklu minni fjármunum en settir eru í þetta dæmi í dag, þ.e. þetta einstaka heimili? Ég held að menn ættu að skoða þessi mál upp á nýtt og tel að það þurfi lagfæringar við að þessu leyti, þannig að sum fyrirtæki í öldrunarþjónustu séu ekki með miklu meiri rekstrarvanda en önnur og þetta dæmi sé svona til þess að læra af því.

Þegar talað er um að landsbyggðin sums staðar sé ekki að gjalda þess hvað gerist á ákveðnum svæðum landsins þá nefni ég uppbygginguna hér á byggingariðnaði og þensluna hér og síðan á Austurlandi. Ég held að landsvæðin norðan- og norðvestanlands og norðaustanlands gjaldi þessarar stöðu. Það er mjög hætt við því ef gengisstefna ríkisstjórnarinnar og stefna Seðlabankans helst óbreytt að sjávarútvegurinn á þessu svæði fari halloka og jafnvel annars staðar á landinu líka. Ég vara sérstaklega við því og tel að menn eigi að skoða þessi mál talsvert betur og vona að við endurskoðun fjárlaganna nú í fjárlagavinnunni fari menn yfir þessi dæmi og velti því fyrir sér: Er einhver lógik í því að standa svo að málum að við missum niður grunnatvinnuveginn?