132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:17]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vill þannig til að ég hef nokkuð lengi eða meira en heilt ár talað mjög tæpitungulaust um þessa hluti. Því verð ég að lýsa yfir dálitlum vonbrigðum að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, félagi minn að vestan, maður sem þekkir íslenskan sjávarútveg, hefur starfað þar og við höfum starfað þar hlið við hlið í marga áratugi, að hann telji að við þurfum að nota haustdagana til að átta okkur á því hvort íslenskur sjávarútvegur geti lifað við þessar aðstæður eða ekki. (Gripið fram í: Þú ert í stjórnarliðinu.) Virðulegi forseti. Það er ekki þannig að við þurfum að nota haustdagana. Þetta liggur alveg hreint fyrir. Sjávarútvegurinn getur ekki og mun ekki geta starfað við þessar aðstæður, hann getur það ekki. Við vitum hvert gengið er, það er einhvers staðar í 103, 104. Fyrir ári sagði ég í þessum ræðustól að ef gengið færi niður fyrir 110 væru atvinnuvegirnir í lífshættu. Ég ætla að endurtaka það nú. Ég ætla ekki að draga neitt til baka af því sem ég sagði fyrir ári.

Mér eru það vonbrigði að hv. þingmaður — ég hafði vonast til þess að hann kæmi hér og tæki undir með mér og ég skora á hann að gera það. Hann fór nefnilega alveg rétt yfir það áðan að allt atvinnulífið er í mjög mikilli hættu og meira en hættu, við vitum að það mun leggjast af í stórum landshlutum ef ekkert verður að gert. Þetta gengi fær ekki staðist og ég skora á hv. þingmann að koma hérna upp að hliðinni á mér og þora að segja það upphátt.