132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:05]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni fyrir að draga fram að allir málsmetandi aðilar í íslensku samfélagi hafa á undanförnum dögum lýst því yfir að þetta fjárlagafrumvarp takist ekki á við það verkefni sem takast þarf á við í hagstjórninni. En hver er boðskapur hv. þingmanns? Það er hræðsluáróðurinn. Eina leiðin til að takast á við vandann, segir hann, er að lækka launin vegna þess að hagnaður fyrirtækjanna er orðinn svo lítill að þau nærast á, hvað var orðið, útsæðinu? (EOK: Það heitir að éta útsæðið.) Í hvaða heimi býr hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson? Við sem fylgst höfum með uppgangi efnahags- og atvinnulífs á Íslandi og þeim stóreignamönnum sem hér hafa orðið til vitum betur. Við vitum að það er ekki einvörðungu launafólkið sem á að axla stöðugleikann í samfélaginu.

Hv. þingmaður er ekki fyllilega heiðarlegur þegar hann fjallar um aðhald í ríkisfjármálum sem einvörðungu útgjaldamál. Hann veit vel að þar erum við að fást við uppsafnaðan vanda síðustu ára. Hann veit vel að þar má skera niður víðar, t.d. hátt í milljarðs vöxt á útgjöldum ráðuneytanna á undangengnum árum. Ýmis útgjöld í utanríkisþjónustu hefur hann sjálfur gagnrýnt. Þannig gætum við haldið áfram. En mergurinn málsins, varðandi aðhald í fjárlögunum, er að úr því að ekki er hægt að skera niður útgjöldin þá hljóta menn að þurfa að horfa á tekjuhliðina. Það er því óhjákvæmilegt að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki einsýnt, eftir þessa útreið fjárlagafrumvarpsins, að ríkisstjórnin fari að ráðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og taki að hluta eða í heild til endurskoðunar áform um skattalækkanir. Hv. þingmaður hefur sjálfur lýst því yfir úr ræðustólnum að ómögulegt verði að skera ríkisútgjöld nægilega niður til að mæta þessum skattalækkunum. Er það ekki hin eina ábyrga afstaða að hafa, virðulegur forseti?