132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:10]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er með hreinum ólíkindum að fylgjast með mótsögnunum í málflutningi hv. þingmanns. Hann telur útilokað að ná fram aðhaldi í útgjöldum ríkissjóðs, sem er út af fyrir sig athyglisvert. Hann heldur því annars vegar fram, réttilega, að verkefnin nú séu að hemja einkaneysluna og lántökurnar og draga úr þenslunni. Á sama tíma fullyrðir hann að besta framlagið til þess sé að ráðast í umfangsmiklar skattalækkanir og skapa þar með hátekjufólki, fólki sem hefur greitt hátekjuskatt, meira svigrúm til að flytja inn fleiri bíla og væntingar til að taka fleiri lán. Þetta fær ekki staðist, virðulegur forseti.

En ég fagna því að hv. þingmaður veki athygli á verðtryggingarvandanum. Ég spyr mig sömu spurningar, þ.e. hvort ástæðan fyrir því að við Íslendingar eigum erfiðara með að halda stjórn á hagsveiflum í landinu en aðrar þjóðir, sé ekki einmitt sú sem hv. þingmaður nefndi, verðtryggingarkerfið sem gerir það að verkum að viðleitni Seðlabankans til að halda aftur af lántökum, eyðslu og fjárfestingum með hækkun stýrivaxta, nær ekki fyrr en löngu síðar til verðtryggðra lána og hins stóra hluta neyslunnar og fjárfestingarinnar sem í því felst. Ég spyr þess vegna hv. þingmann hvað hann hyggist gera á Alþingi, sem varaformaður fjárlaganefndar og talsmaður Sjálfstæðisflokksins í þinginu. Hvað hyggst hann gera í verðtryggingarmálum, til að reyna að vinda ofan af þessum kerfislæga vanda og vinna okkur út úr afleiðingunum af honum?