132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:16]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig vera að tala hér í heilmikilli alvöru og lagði mig fram um það vegna þess að ég tel að málefnið sé alvarlegt. Ég kann því illa þegar menn koma og eru með ómerkilega útúrsnúninga varðandi þetta.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann hvort hann sem stjórnarandstöðuþingmaður þori, geti og vilji koma hér upp í pontu og segja það sem hann veit að er rétt og satt, að nauðsynlegt er að rýma fyrir framleiðslunni á Íslandi, búa til rými fyrir íslenska framleiðslu svo við getum lifað í landinu. Þorir hann að segja við Íslendinga að það sé lífsnauðsynlegt og það geti ekki gerst öðruvísi en að kjör almennings muni rýrna aðeins um nokkurn tíma? Þó að ég viti vel að það taki flugið aftur, þjóðfélagið verður mjög fljótt að jafna sig, það þarf kannski ekki nema nokkur missiri. Þorir hann að segja þetta eða vill hann bara halda áfram að snúa út úr og segja einhverjar sögur af Münchhausen? Þorir hann að tala um það? Veit hann ekki að það er rétt að við Íslendingar höfum hækkað laun, raunlaun okkar meira en nokkur önnur þjóð, meira en aukningin hefur verið á framleiðslunni og við stöndum frammi fyrir því að viðurkenna það? Það er ekki annað hægt. Ég spyr: Þorir hann að segja það eins og honum ber vegna þess að stjórnarandstöðuþingmenn hafa sannarlega ábyrgð eins og aðrir þingmenn og eru ekkert undanþegnir henni. Þeir eiga að koma og þora að segja það, ef þeir hafa meiningar um efnahagslíf á Íslandi, hvað þurfi þar til að koma og hvernig það standi. Því þorir hann þá ekki að segja það heldur hann fer alltaf eins og köttur í kringum heitan graut? Þorir ekki að segja það. Þorir hann að meina að það sé lífsnauðsyn? Gerir hann það eða gerir hann það ekki?