132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:21]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega eins og við þekkjum fyrri daginn, hv. þm. Jón Bjarnason reynir að vera með einhverja útúrsnúninga.

Það hefur enginn sagt það hér, virðulegur forseti, að hinir lægst launuðu á Íslandi séu valdir að ójafnvæginu. Það hefur verið sagt að launagreiðslur á Íslandi í heild sinni séu hærri en fái staðist. Það er óyggjandi. Svo kemur þingmaðurinn og vill meina að ég sé að ráðast á þá sem — þetta er venjulegt skítkast og ekki svaravert.

Hins vegar er það oft þannig, virðulegur forseti, að mikla lagni þarf til að tryggja það að passað sé upp á hag þeirra sem lakast standa í þjóðfélögum þegar á hallar. Það er bara allt annar hlutur.

Ríkisfjármálin eru ekki vandamál á Ísland í dag. Ríkisfjármál á Íslandi standa betur en hjá nokkurri annarri þjóð í Evrópu, það er ekki vandamálið. Þurfum við á því að halda að stoppa hér aðeins við, þá hefur ríkissjóður Íslands alveg efni á því, hann mun þola það mjög vel. Það gerir ekkert til þó að tekjuafgangurinn hverfi, það er bara hið besta mál.

Hins vegar óttast ég að Íslendingurinn, hinn venjulegi Íslendingur sem hefur verið að ganga þessa götu fram eftir veg á undanförnum nokkrum árum, tveim, þrem, fjórum, og mánuðum, að með því að skuldsetja sig og skuldsetja, þá er ég hræddur um afkomu hans. Ég segi þetta núna vegna þess að það borgar sig að segja þetta við fólk því að ef menn ætla að framlengja þetta í eitt ár eða eitt og hálft ár í viðbót, halda áfram viðskiptahalla upp á 120 milljarða á ári þá veit ég að það verður tíu sinnum sárara þegar kemur að skuldadögunum. Ég tel það rétt og sanngjarnt að segja fólki þetta þó að það vilji ekki heyra það, segja það upp í opið geðið á hverjum Íslendingi. Hann hefur gott af að heyra það vegna þess að öll bið er af hinu verra. Það verður enn þá verra (Forseti hringir.) eftir eitt ár, hálft ár eða tvö ár.