132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:38]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það vilji allra að reyna að verja lífskjör Íslendinga. Það hafa allar ríkisstjórnir alltaf reynt að gera. Lífskjör Íslendinga, raunlaunin, raunkaupmátturinn, hafa vaxið hér meira en annars staðar. Ég er margbúinn að segja þetta og þetta vita allir.

Ég met stöðu atvinnulífsins þannig að það væri öllum fyrir bestu að við yrðum að búa til rými fyrir útflutningsframleiðsluna. Í fjárlagagerðinni og þeim grundvelli sem hún er byggð á er gert ráð fyrir því að áfram verði 120 milljarða viðskiptahalli, að kaupmáttur muni aukast um 2,7%. Það er viðmiðunin. Ég lét þess getið, virðulegi forseti, að ég tryði þessu ekki af því að ég tryði ekki grunntölunni, þ.e. viðskiptahallanum. Ég vona og ég þykist viss um að þetta fær ekki staðist. Þegar við stöndum frammi fyrir því að launin kunni að rýrna eitthvað smávegis, 1–2% giska ég á, eftir 10 ára velgengni, eftir að hafa hækkað að raungildi milli 50 og 60% þá er það ekkert voðalegt áfall. Það er ekkert skelfilegt áfall. Það er hlutur sem borgar sig að tala um og tala um af fullri hreinskilni og auðvitað er eðlilegt að ríkið komi þar inn í og reyni með öllu móti að hjálpa til við að gera þetta eins sársaukalítið og hugsast getur, m.a. með skattalækkunum. Það má fjalla um það á ýmsan hátt og fara í gegnum það. Auðvitað gerir hún það og auðvitað á ríkissjóður að fórna tekjum sínum þegar tekjur almennings eru að rýrna. Enda er það ekkert markmið í sjálfu sér að ríkissjóður sé alltaf rekinn með miklum afgangi. Það er mjög nauðsynlegt á velgengnistíma en þegar verr gengur er líka alveg eins lífsnauðsynlegt að ríkið sé tilbúið til að fórna sínum hlut.