132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:54]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þessa fyrirspurn og að ég skuli geta fengið að bregðast við því úr ræðustól á Alþingi.

Það var gríðarlegt áfall þegar Slippstöðin á Akureyri varð gjaldþrota, um hundrað manns misstu vinnuna. Gríðarleg verkþekking er innan þessa fyrirtækis og fyrirtækið hefur malað gull fyrir þjóðarbúið og íslenskan sjávarútveg í gegnum áratugina. Það vitum við hv. þingmaður. Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld, hver sem þau eru á hverjum tíma, tryggi rekstrarumhverfi fyrirtækja á borð við Slippstöðina á Akureyri. Lagðar voru fram tillögur á sínum tíma sem höfðu það að markmiði að bæta umhverfi íslensks skipasmíðaiðnaðar. Því miður hefur þeim tillögum ekki verið fylgt nægilega vel eftir og ég tel að það sé verkefni okkar sem hér erum að fylgja þeim tillögum eftir til þess að bæta umhverfi þessa iðnaðar hér á landi sem er gríðarlega mikilvægur. Við erum væntanlega sammála um það, ég og hv. þingmaður, að við viljum ekki sjá að þessi starfsemi flytjist úr landi og menn vinni þessi verk nær eingöngu einhvers staðar í Austur-Evrópu. Því segi ég það enn og aftur að ég mun leggja mikið á mig til þess að umhverfi þessa iðnaðar verði bætt þannig að rekstrarumhverfi væntanlegs iðnaðar á Akureyri og víða um landið verði blómlegt og blómlegra eftir það.