132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:55]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þm. Birkir J. Jónsson erum sammála um svo margt og við erum sammála um að það þurfi með einhverjum hætti að standa við þau ágætu loforð og drengilegu sem hv. þingmaður gaf fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um að rekstur Slippstöðvarinnar yrði endurreistur. Við erum líka sammála um það, ég og hv. þm. Birkir J. Jónsson, að menn þurfi að vera samkvæmur sjálfum sér. Hv. þingmaður flutti góða ræðu um það áðan sem var auðvitað þörf áminning fyrir okkur öll sem erum í þessum sal.

Hv. þingmaður sagði að skapa þyrfti gott starfsumhverfi fyrir skipasmíðaiðnaðinn svo að hann flyttist ekki allur til Austur-Evrópu. Herra forseti. Má ég rifja upp minni virðulegs forseta og þingheims um hvað hugsanlega var mesta áfallið fyrir þessa ágætu skipasmíðastöð á umliðnum missirum. Það var þegar ríkisstjórnin sem hv. þingmaður styður tók ákvörðun um að flytja mjög mikilvæg viðhaldsverkefni á vegum íslenska ríkisins, viðhald á varðskipum, til Póllands, til Austur-Evrópu. Það var öll hjálpin sem hæstv. iðnaðarráðherra beitti sér fyrir. Þess vegna gladdi það mig þegar ég heyrði hv. þingmann gefa þessi drengilegu loforð gagnvart starfsmönnum Slippstöðvarinnar vegna þess að mér þótti, af því að hv. þingmaður er það ungur að árum, sem hann væri þarna að reyna eins og gott og jákvætt er að bæta fyrir syndir sinna pólitísku formæðra.

Nú spurði ég hv. þingmann bara einnar spurningar og hún var sú: Hyggst hann við 2. umr. fjárlaga standa við loforð sín sem hann gaf fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og leggja fram tillögu um fjármagn sem þarf til að koma rekstri stöðvarinnar aftur af stað? Þetta er einföld spurning. Hv. þingmaður er greindur, ungur þingmaður. Hann hefur öll skilningarvit í lagi og hann skilur þessa spurningu. Spurning mín er, virðulegi forseti: Ætlar hann að standa við þetta?