132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:57]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er dálítið fljótur á sér nú kannski sem endranær, enda bráðlátur maður og skapríkur og mikill ágætismaður. Nú er allt of snemmt að spyrja að því hvort ég hyggist leggja fram einhverja tillögu við 2. umr. fjárlaga sem fer kannski ekki fram fyrr en eftir rúman einn og hálfan mánuð. Hver veit nema hæstv. ríkisstjórn verði búin að bregðast við fyrir þann tíma. Það er allt of snemmt fyrir mig að gefa einhver slík fyrirheit nú en þegar ég tala um endurreisn Slippstöðvarinnar á Akureyri þá stend ég við það að það er skylda stjórnvalda að tryggja þessum iðnaði slíkt umhverfi að hann geti staðið í samkeppni við erlendar skipasmíðastöðvar. Það er það sem við getum lagt hér á vogarskálarnar og er skylda okkar því það er gríðarlegt áfall, ekki einungis fyrir Akureyri heldur útgerðina alla í landinu. Það vill svo til að sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, ef sjávarútvegurinn getur ekki fengið þá þjónustu sem fyrirtæki eins og Slippstöðin á Akureyri hefur veitt í gegnum áratugina. Það er gríðarlegt hagsmunamál og ég hef trú á því að þessi iðnaður verði reistur þarna. Það er ekkert vit í öðru. Þarna er dugmikið fólk með gríðarlega verkþekkingu og það er mjög mikilvægt að þessi starfsemi verði áfram á Akureyri.