132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:03]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var þó ærlegt af hv. þingmanni Birki Jóni Jónssyni að viðurkenna að aðhaldið væri ekki nægjanlegt til að hafa einhver áhrif sem heitið gætu. Það er gott þegar menn viðurkenna sannleikann eins og hann liggur fyrir og allir sjá hver er.

Aðeins um skattamálin sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í ræðu sinni. Mig langar að rifja upp umræðu sem ég tók sjálfur talsverðan þátt í á síðasta þingi um hvort ekki væri ástæða til að lækka svokallaðan matarskatt. Sú umræða stóð ansi lengi og virtist sem það væri almennur vilji þingsins að ráðast í að lækka þennan óréttláta skatt. En það sáu allir og menn sögðu það hér í umræðunni, jafnt sjálfstæðismenn sem aðrir, að fyrirstaðan í því efni væri Framsóknarflokkurinn. Framsóknarflokkurinn vildi ekki lækka skattinn á matvælum og þannig endaði það, því að í ríkisstjórn þar sem tveir flokkar eru þá þýðir ekki að valta yfir samstarfsflokkinn og það tókst ekki að fá Framsóknarflokkinn til þess að viðurkenna það í fyrra að kannski væri rétt að taka þá ákvörðun að lækka matarskattinn. (Gripið fram í: Er það stefna Samfylkingarinnar?) Það var stefna Samfylkingarinnar og er stefna Samfylkingarinnar. Samfylkingin lagði fram þingmál um lækkun matarskattsins sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins treystu sér ekki til að styðja.

Væri nú ekki gott í allri þessari þenslu ef matarverðið hefði nú lækkað sem næmi þessari lækkun? Væri nú ekki gott í þessari verðbólgu sem við erum að horfa á ef matarverðið hefði lækkað með þeim áhrifum sem það hefði á vísitölu neysluverðs? Mig langar að spyrja hv. þingmann um það núna hvort það hefði kannski verið skynsamlegt af Framsóknarflokknum á þessum tíma að samþykkja lækkun matarskattarins eins og um var talað og hafa þannig áhrif til að slá á þensluna eins og ég lýsti áðan.