132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:19]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra þessar upplýsingar. En mig langar að benda honum á að annað álfyrirtæki áformar stækkun, þ.e. álverið í Straumsvík, Alcan. Þar er um talsvert meiri stækkun að ræða en 40 þús. tonna viðbót. Þar er sennilega um rúmlega 200 þús. tonna viðbót að ræða.

Í orðum hæstv. ráðherra liggur að Norðurál virðist eiga að fá grænt ljós hjá ríkisstjórninni með sínar stækkanir, af því að það vegi svo lítið í heildinni. Hvað ætla þeir þá að segja við Alcan? Er ríkisstjórnin á því að það sé allt í lagi að halda stóriðjustefnunni áfram á sömu nótum, af þeirri stærðargráðu sem þau álfyrirtæki sem hér starfa hafa gefið í skyn að verði gert? Ef svo er, af hverju segir þá hæstv. ráðherra í ræðunni sinni að ráðstöfun á söluandvirði Landssímans sé hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar, sem verði ekki eytt fyrr en stóriðjuframkvæmdunum lýkur? Hæstv. ráðherra á auðvitað að nota önnur orð um þetta ef það er ekki spurning um að þessum stóriðjuframkvæmdum fari að ljúka.