132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:22]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa því yfir að orð hæstv. fjármálaráðherra róa mig engan veginn, þvert á móti. Þau auka enn á kvíða minn og óróa hvað þetta varðar. Það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra sér ekkert athugavert við þá stefnu sem keyrð hefur verið varðandi álversframkvæmdir og stóriðju. Hann fær þvert á móti glampa í augun. Álglampinn kemur í augun á hæstv. ráðherra eins og svo mörgum öðrum í ríkisstjórn. Jafnvel þótt hæstv. ráðherra viti að arðsemin af iðnaði á borð við þungaiðnað sé sáralítil fyrir þjóðarbúið. Auðvitað verður hagvöxtur meðan á framkvæmdum stendur en það getur líka verið hagvöxtur ef það er veruleg óöld eða skálmöld í landi. Hagvöxtur er ekki upphaf og endir alls. Hagvöxturinn er einn og sér ákveðinn mælikvarði sem allt í lagi er að líta til. En svo verðum við að gá að okkur. Hvað gerist þegar álbræðslurnar eru komnar á fullt? Þá er arðsemin af framleiðslunni sáralítil. Ég vil ráðleggja hæstv. fjármálaráðherra að taka alvarlega þau skilaboð sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa fært héðan úr ræðustól, að ríkisstjórnin ætti að sýna skynsemi og gefa út yfirlýsingu um að ekki verði farið út í frekari álversframkvæmdir, a.m.k. á næstu sjö árum. Þess í stað verði áhersla lögð á annars konar iðnað og atvinnustarfsemi, t.d. smáa og meðalstóra iðnaðarkosti af viðráðanlegri stærð, þ.e. fyrir hagkerfi okkar. Hagkerfi okkar er lítið og stóriðjuframkvæmdir af því tagi sem hér standa til, eins og mætur maður sagði fyrir tveimur árum og vitnað var til í ræðustól, eru eins og að græða fílshjarta í barn.