132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:24]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Skilaboð okkar í Frjálslynda flokknum til almennings við þessa umræðu eru að spara. Ástæðan fyrir því er sú að ríkisstjórnin er ekki að spara. Frumvarpið sem við ræðum um hér er mjög óábyrgt. Það sér ekki fyrir endann á útgjaldagleði ríkisstjórnarinnar. Í umræðunni hefur ríkisstjórnin ítrekað spurt okkur í stjórnarandstöðunni: Hvernig eigum við að spara? Þeir virðast ekki hafa neinar hugmyndir um hvernig eigi að spara. Það eina sem fram hefur komið í umræðunni er að klípa eigi ökutækjastyrk af öryrkjum og eldri borgurum. Það eru einu hugmyndirnar. Annað stendur ekki til boða, sem er eftir öðru í umræðunni.

Ég hlýddi fyrr í dag á hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Hann hélt því fram fullum fetum að það sem hefði hleypt upp fjárlögum undanfarin ár væri að öryrkjar, eða fatlaðir eins og hann orðaði það, hefðu hrifsað til sín stærri og stærri hluta af kökunni. Það er einfaldlega ekki rétt. Staðreyndin er sú að lífeyrisgreiðslur til öryrkja hafa ekki fylgt almennri launaþróun. Einnig má benda á að lífeyrisgreiðslur til öryrkja hafa ekki heldur fylgt lífeyrisgreiðslum til æðstu embættismanna þjóðarinnar, svo það komi enn og aftur fram.

En fyrst að stjórnarliðar hafa þráspurt um það í dag hvernig eigi að spara þá er best að reyna að bjarga stjórnarliðum. Við í Frjálslynda flokknum höfum m.a. bent á mikla óráðsíu í utanríkisþjónustunni. Í þessum fjárlögum eiga framlög til hennar að hækka um heilan milljarð á milli ára, 1000 millj. kr. greiðsla í utanríkisþjónustuna. Nánast í hverjum mánuði berast fréttir af nýjum og nýjum sendiherra sem oftar en ekki er innvígður og innmúraður í stjórnarflokkana. Þetta er náttúrlega með ólíkindum, að þegar á að slá á þensluna þá sé farið í slíka óráðsíu. Mér finnst að stjórnvöld ættu að íhuga þessi skilaboð til þjóðarinnar.

En hvernig á að ná fram sparnaði? Það á ekki að ná fram sparnaði með því að klípa í einn og einn fjárlagalið, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson benti svo barnalega á. Auðvitað eiga menn að skoða verkferla í hinu opinbera. Benda má á að í Morgunblaðinu kom fram að veitingahúsamenn hefðu rætt um að stjórnsýslan í sambandi við leyfisveitingar væri mjög flókin og hana þyrfti að einfalda. Það eru einmitt svoleiðis hlutir sem þarf að fara yfir en ekki klípa einn og einn fjárlagalið, t.d. að klípa í ökutækjastyrk öryrkja og eldri borgara. Mér finnst undarlegt að menn sjái þetta ekki.

Af því að formaður allsherjarnefndar er hér inni mætti t.d. skoða stofnanirnar sitt hvorum megin við Snorrabrautina en þar eru verkferlar og verkaskipting oft og tíðum ekki alveg ljós. Það er ríkislögreglustjóri og lögreglustjórinn í Reykjavík. Önnur stofnunin er með rúman milljarð og hin á þriðja milljarð. Auðvitað eiga menn að fara yfir það hvort nýta megi þá fjármuni betur og athuga hvort ekki megi samnýta eitthvað hjá þeim við Snorrabrautina, hjá ríkislögreglustjóra annars vegar og lögreglustjóranum í Reykjavík hins vegar. Eins ætti að skoða áherslur embættis ríkislögreglustjóra og hvort eitthvert vit sé í áherslunum. Er vit í að auka t.d. fjárframlög til víkingasveitar um 100 millj. kr. eða meira? Væri ekki nær að skoða hvort ná mætti fram sparnaði, t.d. hvað varðar umferðarslys? Mig minnir að orðið hafi 23 banaslys á síðasta ári og yfir 100 alvarleg umferðarslys. Það væri nær að beina kröftunum þangað en að efla víkingasveit sem hefur það eitt verkefni að vera á réttarböllum í Skagafirði.

Þessi mál þarf að skoða og ég vona að hæstv. fjármálaráðherra leggi við hlustir, t.d. að skoða ferðir opinberra starfsmanna til útlanda. Ég legg til að um að það verði gert skylt að þegar menn fari slíka ferð á vegum hins opinbera þá skrifi menn þrjár línur um tilganginn, að ferðin hafi skilað einhverjum árangri og það verði þá öllum aðgengilegt. Það er með ólíkindum að embættismenn séu sendir um hálfan hnöttinn, t.d. að fylgja eftir eiturefnasamningum í Sri Lanka. Til hvers?

Það eru þessir þættir sem fara þarf yfir. Eins ættu stjórnvöld að sjá að sér varðandi framboð sitt til öryggisráðsins. Það er ekkert vit í því. Það er eitt af þeim verkefnum sem íslenska þjóðin getur bara tapað á að taka þátt í.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talaði um að ekki væri hægt að hemja ríkisútgjöldin. Þetta væri bara eins og náttúrulögmál. Það er með ólíkindum að heyra að flokkur sem kennir sig stundum við einkaframtak skuli vera búinn að auka svona ríkisútgjöldin og komi síðan og biðji vinstri flokkana í þinginu og okkur frjálslynda um hjálp. Hann ræður ekkert við þetta og segir að þetta sé eins og náttúrulögmál og spyr: Hvað eigum við að gera? Ég ætla að benda hv. þingmanni á að það er ýmislegt hægt að gera. Til dæmis eiga menn ekki að samþykkja frumvörp um að skipta upp ríkisstofnunum eins og þegar Samkeppnisstofnun var skipt upp í tvær stofnanir. Ég efast um að það hafi verið einhver sparnaður í því. Eða frumvarpinu sem sjálfstæðismenn lögðu mjög mikla áherslu á að samþykkja um gæðamat á æðardún. Ég skil ekki að það hafi verið mjög mikill sparnaður í því eða til að minnka útgjöld hins opinbera að stofna Ferðamálastofu, eitthvert nýtt eftirlitsbatterí í ríkisrekstrinum. Nú höfum við fjármálaráðherra sem áður var sjávarútvegsráðherra og það væri fróðlegt að fá að heyra hjá honum t.d. hvað hann hafi náð fram miklum sparnaði, af því að honum hefur örugglega verið umhugað um það, þegar hann flutti Fiskistofu í Hafnarfjörð, hvort þar hafi náðst fram einhver sparnaður. Ég get ekki betur séð en að fjárframlög til Fiskistofu hafi aukist um nokkur hundruð milljónir á nokkrum árum. Það er mjög nauðsynlegt þegar verið er að auka svona fjárframlög til einhverra stofnana að menn skýri þá ávinninginn af starfseminni.

Eins vil ég ræða lítillega um menntakerfið á þeim skamma tíma sem ég hef. Ég las í Morgunblaðinu að hæstv. menntamálaráðherra hreykti sér mjög af því að verið væri að auka fjárframlög til menntunar og hún væri hagvöxtur framtíðarinnar. Jú, jú, ég get svo sem tekið undir það. En ef maður les fjárlagafrumvarpið blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa enga trú á iðnmenntun. Það kemur nefnilega í ljós að skorið er niður á rekstrargrunni Iðnskólans í Reykjavík um heilar 8 milljónir. Það er líka mjög athyglisvert að einnig er skorið niður til framhaldsskólans á Höfn í Hornafirði og mér finnst það í rauninni táknrænt að í heimabæ sjálfs hæstv. forsætisráðherra skuli koma niðurskurður til menntamála. Það lýsir í rauninni afstöðu Framsóknarflokksins til landsbyggðarinnar að þar skuli niðurskurðarhnífurinn koma niður, sérstaklega vegna þess að verið er að auka fjárframlög almennt til menntunar. Einnig má sjá að í heimabæ mínum er skorið niður og ekki veit ég hvers vegna. En það sem ég vil vara við, hæstv. fjármálaráðherra, er niðurskurðurinn til Verkmenntaskóla Austurlands vegna þess að það kom fram á ráðstefnu á Höfn í Hornafirði sem ég sótti á dögunum að það er skortur á iðnaðarmönnum til að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem á sér stað á Austurlandi. Því er mjög einkennilegt að hæstv. menntamálaráðherra og fjármálaráðherra skuli leggja til að skera niður einmitt þar. Þar eru fjárframlög mjög naumt skorin. (Forseti hringir.) Maður áttar sig ekki á hvers vegna.