132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:37]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Því miður varð ég ekki var við það við lestur á fjárlagafrumvarpinu að verið væri að ýta undir iðnnám, alls ekki, þvert á móti. Ég komst ekki fyrr í dag með andsvar við ræðu hæstv. fjármálaráðherra og þess vegna langar mig að nýta tækifærið og beina einni fyrirspurn að hæstv. fjármálaráðherra en hún er á þá leið að þegar ríkisreikningur fyrir árið 2003 kom út var niðurstaðan sú að ríkisreikningur sýndi að útgjöld voru heilum 27 milljörðum hærri en voru áætluð í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003. Sömu sögu var að segja fyrir árið 2004 þegar það var gert upp að þar munaði heilum 27 þús. milljónum

Mig langar að beina þeirri fyrirspurn að hæstv. fjármálaráðherra hvort eiga megi von á viðlíka fráviki í þessum fjárlögum eða hvort vinnubrögðin við fjárlagafrumvarpið hafi að einhverju leyti verið bætt þannig að við eigum von á minni mun á útgjaldahlið þess.