132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:40]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2006 og ekki verður um það deilt að staða ríkissjóðs er sterk. Þá verður varla um það deilt heldur að allur almenningur og atvinnulífið á Íslandi hefur mjög notið góðs af þeirri traustu efnahagsstefnu sem við höfum fylgt undanfarinn áratug og rúmlega það. Um þetta vitna staðreyndir eins og þær að kaupmáttur almennings hefur aukist um 50% á umliðnum tíu árum og eins bera öll þau stóru verkefni sem við höfum getað ráðist í á þessu tímabili vitni um hið sama. Við höfum fylgt mjög farsælli stefnu þegar kemur að þeim málum sem við erum að taka hér til umfjöllunar.

Við höfum lækkað skuldir ríkissjóðs verulega og við njótum góðs af því með lægri vaxtagjöldum. Lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs hafa jafnframt verið greiddar niður. Ríkisfyrirtæki hafa verið einkavædd, skattar hafa stórlega lækkað á fólk og fyrirtæki. Við höfum á þessu tímabili þrátt fyrir allt þetta sem ég hef nú talið fram getað stóraukið framlög til velferðarmála. Það höfum við gert jafnt og þétt yfir þetta tímabil. Það er því sérstaklega ánægjulegt þegar við komum nú til þings á þessu hausti að við skulum geta með jafnkröftugum hætti og frumvarp til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands kynnir okkur, með jafnkröftugum hætti og það frumvarp gengur út frá, haldið áfram á þeirri sömu braut að verja fjármunum til framfara- og velferðarmála á Íslandi. Þar er gerð grein fyrir því hvernig 43 milljörðum verður varið til þessara málaflokka fram til ársins 2012.

Þeir sem gagnrýnt hafa sölu Landssímans hafa ekki verið mjög háværir um þau verkefni sem þar eru tilgreind enda eiga þeir eflaust innra með sér mjög erfitt með að andmæla því að þar sé um framfaramál að ræða fyrir þjóðina. Í hinu pólitíska samhengi hafa hins vegar þeir sömu aðilar sem mynda stjórnarandstöðu á þinginu átt mjög erfitt með að sætta sig við að Landssíminn yrði seldur og í því birtist kannski sá ágreiningur sem um það mál hefur verið að þeirra leið til þess að hrinda þessum verkefnum í framkvæmd hefði aldrei getað orðið önnur en sú að hækka skatta. (Gripið fram í.) Nei, við gerðum það ekki. Við losuðum úr viðjum verðmæti sem að óþörfu voru vistuð hjá ríkinu og á sama tíma og við hrindum í framkvæmd skattalækkunum er ráðist í þessi verkefni.

Aftur að frumvarpinu sem hér er til umræðu þá er að finna í því yfirlit yfir hagvöxtinn eins og hann hefur þróast frá árinu 2000. Það verður auðvitað að segjast að það er með miklum ólíkindum hversu mikill hagvöxtur hefur verið hér á árunum frá 1995. Í frumvarpinu er sérstakt yfirlit yfir árin frá 2000 og útlitið fram til 2010 er áfram sérstaklega jákvætt. Við erum reyndar öfunduð af öðrum þjóðum af þeim hagvaxtartölum sem við höfum búið við hér á landi og þeim hagvaxtartölum sem við horfum fram á.

Um leið og ég óska hæstv. fjármálaráðherra Árna M. Mathiesen velfarnaðar í nýju starfi er ástæða til að óska fráfarandi hæstv. ráðherra, Geir H. Haarde, til hamingju með þann glæsilega feril sem hann hefur átt í ráðuneyti fjármála. Það hafa sannarlega orðið mikil umskipti á íslensku samfélagi og efnahagsástandi landsins í fjármálaráðherratíð hans í ríkisstjórnum undir forustu Davíðs Oddssonar og nú síðast Halldórs Ásgrímssonar.

Ég hef fylgst með umræðunum á hinu háa Alþingi í dag og ég verð að segja að umræðan og gagnrýni stjórnarandstöðunnar á það frumvarp sem hér er til umfjöllunar er einhver sú allra bitlausasta sem ég hef orðið vitni að. Það kann að vera að ástæðan sé sú að hér sé ekkert annað á ferðinni en endurómur af þeirri bölsýni sem við höfum mátt hlýða á undanfarin ár um þetta sama mál. Á sama tíma og sú afstaða hefur verið uppi af hálfu stjórnarandstöðunnar að hér væri allt að fara í bál og brand þá hafa kjör almennings batnað ár frá ári. Ár eftir ár kemur stjórnarandstaðan fram með gagnrýni á fjárlagafrumvarpið og dregur upp dökka mynd af horfunum en ár eftir ár batna kjörin, skuldir ríkisins lækka, skattar almennings fara niður og atvinnulífið blómstrar. Auðvitað er þetta vandræðaleg staða fyrir stjórnarandstöðuna og þeim er að vissu leyti vorkunn að hafa ekki fengið að taka virkan þátt í þeirri miklu umbyltingu á samfélaginu sem styrk stjórn efnahagsmála undanfarin ár hefur tryggt.

Ég segi að gagnrýni stjórnarandstöðunnar hér í dag sé bitlaus vegna þess að þingmenn hennar hafa ekki boðið upp á neinar lausnir á vandanum sem verið er að lýsa. Þeir hafa í raun og veru ekki gert neitt annað en draga upp mynd af því sem þeir telja að sé í vændum og þeirra sýn á stöðuna án þess að leggja fram hugmyndir til lausnar á þeim mikla vanda sem þeir telja að verði til staðar.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson kom upp áðan og sagði ríkisstjórnarflokkana, okkur þingmenn meiri hlutans á þinginu, vera að kalla eftir svörum frá stjórnarandstöðunni um hvernig ætti að bregðast við. Það er auðvitað þannig, hæstv. forseti, að svör okkar birtast í fjárlagafrumvarpinu. Þau birtast í langtímaáætluninni og þau birtast í því hvernig við höfum hagað ríkisfjármálunum. Þar eru okkar svör. Vilji menn gagnrýna þessi svör okkar við þeirri stöðu sem núna er uppi þurfa menn að koma með einhver svör við því hvaða leiðir væru heppilegri. Það þýðir ekkert í því samhengi að tína til einhverja smávægilega liði þótt þeir hver fyrir sig kunni að vera mikilvægir. Við getum rætt um það en það þýðir ekkert að vera að tína þá til í samhengi við stöðu efnahagsmála, í samhengi við hagvöxt, í samhengi við viðskiptajöfnuð og aðra slíka þætti. Það þýðir ekki að tína til einstök embætti og aðra slíka hluti. Við erum að tala um stóru drættina í efnahagsmálum þegar við ræðum um stöðuna og horfurnar í efnahagsmálum ríkisins.

Þegar rætt hefur verið um þau krefjandi verkefni sem við okkur blasa þá eru þau ekki ný af nálinni. Við höfum vitað það allan tímann að hagstjórnarverkefnin yrðu mjög krefjandi á tímum stóriðjuframkvæmda. Við höfum vitað þetta allan tímann og menn eru ekki að koma með neina speki inn á þingið þegar þeir tala um að gengið sé hátt, að það sé mikill ójöfnuður í viðskiptum við útlönd eða að vextir séu háir. Þetta eru bara staðreyndir sem allir þekkja. Það þýðir ekkert að koma hingað upp í ræðustól á Alþingi og þylja þetta allt saman upp og segja óveðursský hrannast upp og að blikur séu á lofti. Við erum ekki kjörin hingað inn á þing til að gera þjóðinni grein fyrir því hver staðan er. Við erum komin hingað til að segja þjóðinni hvernig við ætlum að greiða úr þeim vandamálum sem að okkur steðja og það er þess vegna sem ég sakna þess frá stjórnarandstöðunni að hún komi með einhver svör við því hvernig eigi að bregðast við stöðunni sem vissulega er krefjandi.

Hvar eru lausnirnar? Menn segja að aðhaldið sé ekki nóg. Það er greint frá því í haustskýrslu fjármálaráðuneytisins, Þjóðarbúskapnum, að stjórnvöld hafa aukið aðhald í ríkisfjármálum og það er áætlað, eins og fram kemur í skýrslunni, með leyfi forseta:

„... að afgangur ríkissjóðs verði 2,8% af landsframleiðslu árið 2005.“ — Samkvæmt þjóðhagsreikningsdæmi. — „Frá árinu 2003 til ársins 2005 er búist við að tekjuafkoman batni um tæplega 5% af landsframleiðslu sem er með besta árangri í ríkisfjármálum OECD-ríkja á þessu tímabili.“

Það er aukið aðhald í þessu frumvarpi. Menn eru að fresta framkvæmdum og kynna auknar framkvæmdir þegar stóriðjuframkvæmdum lýkur. Þetta eru svörin sem fjárlagafrumvarpið geymir við þeim vanda sem hér er verið að tala um.

Síðan er það spurningin hvort hér komi til með að verða einhver samdráttur í skamman tíma. Það kann vel að vera og ég tek undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. Við getum ekki endalaust aukið kaupmáttinn með þeim hætti sem við höfum gert undanfarin ár. Það er ekki endalaust hægt að gera það. Hugsanlega höfum við farið of geyst en hversu dýrt er það gjald að upplifa hér eitt og hálft ár þar sem kaupmátturinn vex ekki eða við fáum skammvinnt samdráttarskeið, sem reyndar er ekki spáð í þessu fjárlagafrumvarpi. En jafnvel þó að þær spár gangi eftir, hversu mikið gjald er það í samhengi við allan þann ávinning sem við höfum haft hér af stjórn efnahagsmála síðustu 10–15 ár. Það er smávægilegt, segi ég.