132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:52]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi taka það fram að auðvitað get ég tekið undir með hv. þingmanni Frjálslynda flokksins: Það er skynsamlegt fyrir almenning að spara og skynsamlegt fyrir stjórnvöld að greiða niður skuldir. Það er ekki hægt að andmæla því og við erum fullkomlega sammála um þetta atriði. Ég var að vekja athygli á því hér að það þýðir ekkert að tína til einhver smávægileg sparnaðarúrræði þegar við erum að tala um horfur í efnahagsmálum, þegar við erum að tala um viðskiptajöfnuðinn við útlönd og annað þess háttar. Það þýðir samt sem áður ekki að það kunni ekki að vera til í kerfinu, og hjá hv. þingmanni og öðrum þingmönnum, fjölmargar minni háttar hagræðingartillögur sem geta horft til sparnaðar í ríkisfjármálum, en þær skipta engu máli í því samhengi sem við erum að ræða hér, nákvæmlega engu máli. Þær telja ekkert þegar kemur að úrlausn þess vanda sem stjórn ríkisfjármálanna snýst um.

250 millj. Ég efast um að hv. þingmaður geti fundið slíka fjármuni með einhverri hagræðingu á milli lögreglunnar í Reykjavík og ríkislögreglustjóra. Mér þætti gaman að sjá hvar hann ætlar að finna þá fjármuni. Hér er komið fram fjárlagafrumvarp og hv. þingmaður vék að ökutækjastyrk. Við skulum bara sjá hverjar lyktir þess máls verða. Ég hef í sjálfu sér ekki sérstaklega mælt fyrir þeim niðurskurði. Við skulum bara sjá það mál þróast á þinginu. En ég held að það væri ágætt að hv. þingmaður notaði seinni ræðu sína í dag til að gera grein fyrir því hvar hann hyggst skera niður í stóru málaflokkunum. Við setjum í þessu fjárlagafrumvarpi 3 milljarða í aukin útgjöld til menntamála miðað við fjárlög ársins 2003. Við setjum 1,5 milljarða í aukin útgjöld til velferðarmála og almannatrygginga, rúman milljarð í heilbrigðismál o.s.frv. Er það þarna sem hv. þingmaður vill skera niður? Vill hann hætta við framlög til þessara velferðarmála eða hvar er það sem hv. þingmaður hefur hugmyndir um að hægt sé að ná milljörðunum?