132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:12]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr í hvaða heimi ég lifi. Virðulegi forseti, ég verð að segja að … (Gripið fram í: ..... Kópavogi.) Já, ég bý í Kópavogi reyndar, það er hárrétt, enda er gott að búa í Kópavogi. (Gripið fram í: Gott að búa í Kópavogi.) En ég vil segja þetta við hv. þingmann: Ég veit mætavel að það eru fjölmargir með millitekjur sem berjast í bökkum.

Hann talar um að eitthvað eigi að gera fyrir þennan hóp. Þá spyr ég til baka: Er þessi þingmaður, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, þá stoltur af sínum mönnum í Framsóknarflokknum sem hafa verið í ríkisstjórn síðan 1995 (Gripið fram í.) sem eru í þessu fjárlagafrumvarpi að leggja til lagabreytingar til að skerða vaxtabæturnar? Er hv. þm. Birkir Jón Jónsson stoltur af mönnum sínum í Framsóknarflokknum sem hafa hlunnfarið barnafólk á undanförnum árum með því að skerða barnabætur en ætla núna að koma reyndar með einhverja sárabót en skila einungis (Gripið fram í: Hvað gerði Jóhanna?) á árunum 2006–2007 fjórðungi af því sem þær voru 1995 ef þær hefðu fengið að þróast hér eðlilega en voru skertar.

Virðulegi forseti. Mér þykir því gríðarlegur tvískinnungur í málflutningi hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar sem í annan stað talar um að hér eigi að vera flöt skattalækkun fyrir þá sem eru með svo há laun að þeir fá ekki barnabætur og vaxtabætur, síðan á hinn bóginn talar hann með fólki sem er með millitekjur og berst í bökkum en er á sama tíma að samþykkja að skerða vaxtabætur til þess hóps. Þetta þykir mér afar rangt vegna þess að sá hópur á auðvitað að fá eitthvað líka. Hann fær ekki þessar skattalækkanir í sama mæli og hátekjufólkið, þ.e. millitekjuhópurinn, hann fær það ekki. Og hann á að fá það í gegnum vaxtabæturnar þess í stað.