132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:15]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru tvö atriði sem mig langar til að ræða hérna. Annað er það að hv. þingmaður fór yfir það í upphafi ræðu sinnar að hún hefði miklar áhyggjur af jafnvægisleysi eða skorti á stöðugleika í efnahagslífinu. Það er ekkert nema gott um það að segja að menn hafi áhyggjur af slíku vegna þess að það er rétt að vera á varðbergi. En ég heyrði ekki eitt einasta orð um hvernig hún telur að bregðast eigi við þessu og hvað væri helst til ráða ef útlitið er þannig að við getum átt von á að meira ójafnvægi verði hér en við höfum vanist nú um langan tíma. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að þingmenn komi fram með það og segi skoðun sína á því þannig að við getum áttað okkur á hvernig menn líta á þetta og hverjar væru þá tillögurnar.

Annað atriði sem hv. þingmaður kom inn á finnst mér ástæða til að gera að umræðuefni. Hún fór að ræða um þann texta sem kemur fram frá heilbrigðisráðuneytinu um breytingu á svokölluðum bensínstyrk. Nú geta ráðuneyti og ríkisstjórnir breytt styrkjum fram og til baka og í því sambandi eru alltaf umræðuefni og deilumál hvað sé rétt og rangt. En ég ætla að taka það fram að textinn sem stendur þarna, að ráðuneyti heilbrigðismála ætli að eyða 224,5 milljónum til að mæta hagræðingarkröfunni sem það hefur, er náttúrlega annaðhvort ósvífni eða bara hreint bull. Ég get lofað hv. þingmanni því að Alþingi mun örugglega aldrei láta eitt ráðuneyti komast upp með svona vitleysu. Ráðuneytinu ber að svara kröfunni um hagræðingu, sem er nú ekkert mjög mikil, og þetta ráðuneyti kemst ekkert upp með það frekar en annað ráðuneyti. Það verður að svara kröfunni um hagræðingu. Það væri nú aldeilis ef einhver ráðuneyti ætluðu að fara að afgreiða kröfuna með þessum hætti að breyta bótum eða hverju sem væri til þess að geta svarað þessu. Þetta er fráleitt og ég lofa þingmanninum því að þetta fer aldrei í gegn.