132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:17]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðustu orð hv. þingmanns Einars Odds Kristjánssonar fagna ég því að þetta eigi ekki að fara í gegn, við hljótum að fagna því. En það sem ég var að segja er að þetta stendur einfaldlega í fjárlagafrumvarpinu og í texta um þennan svokallaða bensínstyrk.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mun leggja fram frumvarp til laga fyrir Alþingi þess efnis að uppbót á elli- og örorkulífeyri og örorkustyrk vegna reksturs bifreiðar, svokallaður bensínstyrkur, verði felld niður frá og með 1. janúar 2006 en styrkurinn er áætlaður 720 millj. kr. Af þeim fjármunum er lagt til að 100 millj. kr. verði millifærðar til að efla starfsendurhæfingu sjúkratrygginga og 393,6 til að hækka tekjutryggingarauka hjá elli- og örorkulífeyrisþegum og 226,4 millj. kr. notaðar til að mæta hagræðingarkröfu.“

Virðulegi forseti. Ég fagna því ef hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson er sammála mér um að þetta sé röng leið til að mæta hagræðingarkröfu, þá finnum við án efa flöt á því innan fjárlaganefndar að þetta hverfi út, þessi ákvörðun sem hér liggur fyrir og hér er kynnt og er einnig kynnt í yfirliti yfir lagabreytingar sem gera þarf.

Varðandi það hvaða leiðir við mundum fara til bóta og til að koma meira jafnvægi á efnahagsástandið þá get ég upplýst hv. þingmann um að ef hann t.d. læsi yfir þær róttæku breytingar sem við höfum áætlað að gera á Stjórnarráðinu þá er ég alveg viss um að þar mundi felast töluverð hagræðing fyrir stjórnkerfið þar sem við munum fækka ráðuneytunum úr 12 í 9 og sameina krafta þeirra ráðuneyta sem ættu að vera saman.

En auðvitað hefði átt að byrja að taka á þessum málum árið 2000 þegar menn sáu í hvað stefndi. En það var þá sem ríkisstjórnin byrjaði að kalla: Stöðugleiki, stöðugleiki, og hætti að hlusta og hætti að gera nokkuð í málunum sem hefði getað komið í veg fyrir þetta