132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:36]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil segja örfá orð við þá umræðu sem farið hefur fram í dag um fjárlagafrumvarpið. Ég tek undir það sem stjórnarliðar hafa talað um, að um er að ræða gott frumvarp að langmestu leyti. Það er gott innlegg í efnahagsmálin í samfélaginu. Að öðru leyti vildi ég halda mig við þann málaflokk sem ég fer með og nefna örfá atriði um stefnu okkar, sem ég tel til bóta.

Áðan töluðu menn um stór mál og smá. Mér er mikil ánægja að geta skýrt frá nokkrum smærri málum sem þetta frumvarp þokar áleiðis. Við gerum átak í meðferð átröskunarsjúklinga á Landspítalanum. Við greiðum niður gleraugu fyrir börn, sem er ekki stórt mál en hins vegar stórt mál fyrir þá sem í hlut eiga. Við ætlum að gera sérstakt átak í Hafnarfirði og bæta þar 20 rýmum við fyrir alzheimersjúklinga. Við leggjum mjög mikla áherslu á endurhæfingu í þessu frumvarpi höldum áfram uppbyggingu í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Ætlunin er að koma tveimur nýjum heilsugæslustöðvum í not á því svæði.

Af því að ég minntist á endurhæfingu vil ég hafa nokkur orð um mál sem nefnt hefur verið af flestum í umræðunni. Það eru tillögur sem er að finna í frumvarpinu, um svokallaðan bensínstyrk sem verður felldur niður frá áramótum. Það hefur verið gagnrýnt, bæði í fjölmiðlum og af stjórnarandstöðunni á Alþingi. Ég vil undirstrika að um leið og bensínstyrkurinn er lagður niður hækkar tekjutryggingarauki um rúmlega fimmtung, eða sem nemur um 400 millj. kr. 100 millj. kr. renna svo til endurhæfingar. Afgangurinn, rúmlega 220 millj. kr., er svo nýttur til að mæta almennum hækkunum í almannatryggingakerfinu.

Bætur almannatrygginga hækka frá fjárlögum þessa árs um 2.600 millj. kr., af því eru verðbætur um 1.000 milljónir af upphæðinni þannig að bein hækkun bóta, m.a. vegna fjölgunar í þessum flokki, er um 1,6 millj. kr.

Bensínstyrkurinn var í upphafi hugsaður sem styrkur við hreyfihamlaða og er lögum samkvæmt félagslegt úrræði, viðbót við þá aðstoð sem tiltekinn hópur manna fær til að kaupa bíl og viðbót við þá þjónustu sem sveitarfélögin veita með akstursþjónustu sinni. Útgjöld vegna hans hafa tvöfaldast frá árinu 2000, þá voru þau 389 millj. kr. en hefðu að óbreyttu orðið 750 millj. kr. á næsta ári. Nú fá 6.800 manns svokallaðan bensínstyrk til að reka bíla sína, 2.650 öryrkjar og rúmlega 4.000 ellilífeyrisþegar. Tæplega 4.600 manns missa bensínstyrkinn og eru ekki með tekjutryggingarauka, sem þýðir að þeir fá enga hækkun á móti. Af þessum hópi eru um 2.500 ellilífeyrisþegar og rúmlega 1.900 öryrkjar. Þeir sem aftur á móti fá fimmtungshækkun á tekjutryggingarauka eru tæplega 11.000 talsins eða um 6.300 ellilífeyrisþegar og um 4.200 öryrkjar.

Meðaltal viðmiðunarbóta og tekna öryrkja sem missa bensínstyrkinn er um 200 þús. á mánuði en þeir sem fá í staðinn hærri tekjutryggingarauka eru með samsvarandi tekjur á mánuði, um 127 þús. kr. Meðaltal viðmiðunartekna og bóta ellilífeyrisþega hins vegar sem missa bensínstyrkinn var um 153 þús. kr. á mánuði í maí síðastliðnum en meðaltal tekna og bóta þeirra sem fá í staðinn fimmtungshækkun tekjutryggingarauka var hins vegar um 108 þús. kr. á mánuði á sama tíma.

Í hópi hreyfihamlaðra hafa þeir einir fengið þennan þátt félagslegra bóta sem eiga bíl en hinir ekki sem eru bíllausir. Stuðningurinn, þ.e. bifreiðakaupastyrkir, hjálpartæki bifreiða, niðurfelling bifreiðagjalda og annað sem hefur komið í hlut þeirra sem eiga bíl hefur ekki gagnast þeim sem t.d. hafa ekki ráð á að kaupa sér og reka bíl. Þeir sjá hins vegar fram á fimmtungshækkun tekjutryggingaraukans.

Það er rétt að geta þess að með þessari aðgerð er starfsendurhæfing efld umtalsvert með því að fjölga úrræðum í starfsendurhæfingu og reyna þannig að koma í veg fyrir að einstaklingar fari á örorkubætur. Það skal ítrekað að í frumvarpinu er það fjármagn þrefaldað sem varið er til starfsendurhæfingar frá fjárlögum þessa árs.

Virðulegi forseti. Í ljósi umræðunnar um þetta mál hef ég ákveðið að fara fram á fund með forustumönnum Öryrkjabandalagsins um þetta mál. Ég hef rætt við formann Öryrkjabandalagsins og mun þeim fundum verða komið á eftir helgina. Þessar aðgerðir þarfnast lagabreytingar en ég hef ákveðið að fara rækilega yfir málið með forsvarsmönnum Öryrkjabandalagsins áður en ég legg það frumvarp fram, sem mun og á að fylgja fjárlagafrumvarpinu.

Ég vildi koma þessum skýringum á málinu á framfæri í fjárlagaumræðunni vegna þess að þetta hefur verið mjög til umræðu í þjóðfélaginu og eins hér á Alþingi.