132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:45]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil minna á varðandi samráð að samkvæmt hinum venjulegu reglum og þingsköpum sem gilda hér þarf að flytja slíkar breytingar sem fylgifrumvarp með fjárlagafrumvarpinu. Ég hef ákveðið að áður en ég legg það frumvarp fram að fara yfir málið með Öryrkjabandalaginu og hef rætt það við formann þess. En ef svo hefði ekki verið hefði Öryrkjabandalagið vissulega komið að vinnslu þessa máls í þinginu eins og venja er til.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fjölyrða um málið á þessu stigi. Málið fer í vinnslu og ég hef ákveðið að kanna hug Öryrkjabandalagsins til þessa máls og hvaða tillögur þeir eru með. Ég hef ekkert horfið frá því að ég tel að þessi tegund bóta sé gölluð og þurfi endurskoðunar við og það er sjálfsagt að fara yfir það mál.