132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:47]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fjölmörgum hv. þingmönnum fyrir hlý orð í minn garð og góðar óskir. Það er ágætt að geta byrjað starfið á slíkri umræðu á hv. Alþingi.

Það hafa líka komið fram þó nokkrum sinnum í umræðunni óskir um að orðræðan væri á tiltekinn hátt eða að menn lýstu hlutunum eins og þeir væru en væru ekki með einhvern sýndarveruleika á takteinum. Ég get svo sannarlega tekið undir það, það fer alltaf best á því að lýsa hlutunum eins og þeir eru, lýsa raunveruleikanum. Ef menn geta ekki lýst hlutunum eins og þeir eru þá lýsi þeir þeim alla vega eins og þeir sjá þá, að menn séu ekki með hræðsluáróður og heldur ekki með óraunsæjar væntingar.

Það er einmitt nákvæmlega það sem við erum að reyna að gera í fjármálaráðuneytinu eða í þjóðhagsspánni, að lýsa raunveruleikanum eins og við sjáum hann út frá þeim upplýsingum sem við höfum eins vel og við getum. Það vita hins vegar allir að þar sem um spár er að ræða geta menn haft mismunandi skoðanir á því hvað er lagt til grundvallar og hvernig hlutirnir þróast. En ég get fullvissað hv. þingmenn um að í þjóðhagsspánni eru hlutirnir eins og við sjáum þá best.

Eins og eðlilegt er er mikið talað um fjármuni í fjárlagaumræðunni og skiptingu fjármuna, menn hafa rætt um misskiptingu fjár, misskiptingu auðs og þróun í þá veru. Einn hv. þingmaður, hv. þm. Jón Bjarnason, lýsti því yfir að hann væri alls ekki á móti því að fólk yrði ríkt, hann vildi hins vegar að það ríkti jöfnuður. Það mætti vissulega leggja þessi orð út á þann veg að þarna væri um þversögn að ræða en ég vil frekar túlka þau þannig að hann hafi verið að meina að hann vildi gjarnan að fólk hefði það gott og jafnvel að það væri ríkt en hann vildi hins vegar ekki að munurinn væri of mikill og að það að einn væri ríkur þýddi að aðrir væru fátækir. Þetta er falleg hugsun af hans hálfu og held ég meira að segja raunhæf hugsun ef við horfum á hana í samhengi þjóðfélags okkar. Það sem hefur verið að gerast hjá okkur hefur gerst á þann hátt að allir hafa það betra í dag en þeir höfðu áður, t.d. ef við miðum tíu ár aftur í tímann. Það er enginn sá þjóðfélagshópur sem ekki hefur það betra nú en hann hafði það þá og það er alveg sama á hvaða mælikvarða menn bera þetta saman, þannig lítur það út.

En ef hlutirnir skyldu nú æxlast þannig að einhverjir af einhverjum orsökum yrðu ofboðslega ríkir, hvað eigum við þá að gera? Eigum við að banna það? Eigum við að reyna að koma í veg fyrir það, eigum við leggja stein í götu fólks sem vill verða ríkt, vill eiga mikla peninga? (Gripið fram í: Hætta að gefa þeim gullið.) Það snýst kannski ekki um það, hv. þingmaður, því að í flestum tilfellum er það fólkið sjálft sem aflar fjárins. Það er í fæstum tilfellum svo að verið sé að gefa það af hálfu ríkisins.

Eigum við að banna þetta? Ættum við þá að hafa það eins og einn hv. þingmaður talaði um hérna, að það væri alveg óþolandi að gengið sveiflaðist svona, alveg óþolandi að vextirnir sveifluðust svona. Ætlum við þá að fara að miðstýra því hverjir vextirnir eigi að vera, hvað gengið á að vera og hvort eða hverjir megi verða ríkir? Ég held að það yrði þjóðfélag sem enginn hér á landi vildi búa í, en auðvitað koma upp svona hugmyndir í hita leiksins í umræðunni.

Hætta að gefa þeim gullið, sagði hv. þingmaður, og þá á hann væntanlega við skattalækkanir sem hér hafa líka verið til umræðu. (Gripið fram í: ... bankarnir.) Bankarnir voru seldir, hv. þingmaður. Skattar hafa eðlilega verið nokkuð fyrirferðarmiklir í umræðunni, en þær skattalækkanir sem ákveðnar hafa verið eru tekjuskattslækkanir, eignarskattslækkanir. Þær koma langsamlega flestum til góða, ef ekki öllum ef þeir á annað borð borga skatta. Eignarskattslækkanir koma sérstaklega þeim öldruðu til góða sem eiga skuldlausar eignir og hafa kannski takmarkaðri tekjur á efri árum. Ég hef heyrt það á þingmönnum að það eru mjög margir hér sem bera hag þeirra fyrir brjósti. Það vill líka þannig til að við það að tekjuskattsprósentan er lækkuð hækka skattleysismörkin og á milli ára nú munu skattleysismörkin hækka um 5%. Þegar allar skattalækkanirnar hafa tekið gildi hafa skattleysismörkin hækkað um 20%. Það getur verið að menn hafi ekki áttað sig á þessari virkni. Menn hafa verið að tala um persónuafsláttinn og verið að gera því skóna að þeir sem minnst hefðu væru ekki að hagnast á þessu. En það að skattleysismörkin hækka á þennan hátt hjálpar einmitt þeim hópi.

Einnig hefur mikið verið talað um aðhald og að aðhald skorti í fjárlögin. Auðvitað hlýtur það að vera álitamál á hverjum tíma hvert aðhaldið á að vera og einnig hversu mögulegt er að hafa aðhaldið mikið. En til þess að hafa umræðuna nokkuð skikkanlega verða menn að leggja eitthvað til grundvallar, hafa einhvern útgangspunkt um hverju þeir ætla að ná fram með aðhaldinu. Þá þurfa menn væntanlega að hafa hagvaxtarspá og síðan eitthvert markmið um hvaða áhrif þeir ætla að hafa á hagvaxtarspána á landsframleiðsluna með því aðhaldi sem þeir ætla sér að ná. Við höfum heyrt hér loforð frá hv. þingmanni Samfylkingarinnar um að Samfylkingin muni leggja fram tillögur um aukið aðhald í ríkisfjármálunum og er gott eitt um það að segja. En ég verð að leggja ríka áherslu á að menn skilgreini það þá hver útgangspunkturinn er, út frá hverju er verið að ganga og hvaða markmiðum ætla menn að ná og hvernig ætla þeir að ná þeim. Og af því að ég vil gjarnan að þær tillögur verði sem bestar úr garði gerðar að hafa það þá í huga að máli skiptir á hvora hliðina verið er að sækja aðhaldið, hvort það er á tekjuhliðina eða gjaldahliðina.

Einhverjir hafa talað um að vandamálin í dag séu meiri en þau voru um aldamótin, á árunum 1999, 2000, 2001. Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt, ég er ekki viss um að þenslan eða spennan sé meiri nú en hún var þá eða réttara sagt verði meiri á næsta fjárlagaári en hún var á því tímabili. Það gæti hafa litið út fyrir það um tíma en miðað við hvernig hagvöxturinn hefur þróast þá hefur hann færst til. Þunginn í framkvæmdunum, þunginn í efnahagsumsvifunum hefur færst framar og er fyrr á ferðinni en við ætluðum. Ég er því alls ekki viss um að þegar við horfum fram á næsta ár sé um það að ræða að þá verði spennan meiri en hún var á þessu fyrra skeiði sem nefnt hefur verið og vísað hefur verið til og þess vegna sé nauðsynlegt að hafa meira aðhald á næsta ári en var t.d. á árinu 2000.

Ég var beinlínis spurður að því hvort til stæði að breyta verðbólgumarkmiðunum vegna þeirra verðbólgutalna sem sést hafa og þeirra vaxtatalna sem sést hafa í stýrivöxtum Seðlabankans. Ekkert slíkt stendur til. Mér fannst á máli hv. þingmanns að það gæti verið að hann teldi að verðbólgumarkmiðin væru sett með lögum, sem ég held reyndar að sé ekki raunin og mekanisminn sé sá að Seðlabankinn setji markmiðin með samþykki eða staðfestingu forsætisráðherra, þannig að við höfum það bara á hreinu til þess að umræðan geti gengið greiðlega fyrir sig.

Auðvitað hefur þetta allt saman mikil áhrif á gengið. Ég vil meina að enginn viti það betur en ég, kannski veit einhver það jafn vel og ég, hversu erfitt það getur verið fyrir sjávarútveginn að mæta sveiflum í genginu. Hann hefur hins vegar gert það, held ég, með alveg ótrúlegum hætti síðustu missirin og sýnt alveg gríðarlega mikinn styrk og ég held að þær breytingar sem við höfum gert á fiskveiðistjórnarkerfi okkar á undanförnum árum og áratugum sýni virkilega hvers megnugar þær eru og hversu megnugur sjávarútvegurinn er við þessar aðstæður.

Einn hv. þingmaður vísaði til jafnvægisgengis, að það ætti að vera 130 stig eða þar um bil. Það er vissulega rétt að talað var um þetta fyrir nokkrum missirum en ég er næstum því viss um að í dag er þetta orðið breytt. Að minnsta kosti talaði framkvæmdastjóri í sjávarútvegi þannig við mig að hagræðingin er gengin það langt að þessi tala er orðin einhver önnur í dag en hún var fyrir nokkrum missirum. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að einhverjir hafi þá skoðun og ekki ætla ég að gagnrýna Íslandsbanka sérstaklega, þessar tölur eru komnar frá honum, því að mér sýnist reyndar að þjóðhagsspá Íslandsbanka sé líkust þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins af þessum spám og ekki mikið sem þar ber í milli, kannski eru þetta bara hinir bestu menn sem þar eru og ég eigi að hlusta meira á þá. Þannig víkur þessu við mér. Að minnsta kosti ber Íslandsbanka, Landsbanka og fjármálaráðuneytinu saman um það að gengið muni breytast á næsta ári og fara upp í það vera að meðaltali á bilinu 114, 115 stig og mun auðvitað verða mikill munur frá því sem það er í dag gagnvart útflutningsatvinnuvegunum.

Einn flokkur lýsti því yfir að hann hvetti til sparnaðar. Ekki er annað hægt en taka undir það því að út af fyrir sig er það rétt að það sem kannski skortir einna helst á hjá okkur almennt er þjóðhagslegur sparnaður. Talað hefur verið um það hérna af mörgum að óþarflega mikil eyðsla og mikil skuldasöfnun sé meðal þjóðarinnar og ekki ætla ég að hvetja til skuldasöfnunar, frekar vil ég hvetja til sparnaðar. Við skulum hins vegar einnig hafa það í huga að á bak við þær skuldir sem heimilin, fyrirtækin og jafnvel sveitarfélögin hafa stofnað til eru eignir þó að það eigi kannski síst við um sveitarfélögin og kannski allra síst við um höfuðborgina.

Farið var út í útgjaldaþróun og skuldaþróun eins og eðlilegt er. Þar fóru menn því miður ekki rétt með tölur og ég vísa mönnum í talnaheftið, annars vegar með þjóðarbúskapnum og hins vegar með frumvarpinu, til þess að fara yfir útgjaldaþróun sem hlutfall af landsframleiðslu og skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu, það er óþarfi fyrir mig að lesa upp heilu töflurnar. (Gripið fram í: Hvaða menn voru það?) Hv. þingmenn, þakka þér fyrir leiðréttinguna, hv. þingmaður.

Talsvert hefur verið minnst á stóriðju. Hún á auðvitað sinn þátt í þeim hagvexti og kannski má þá segja í þeirri þenslu sem við sjáum hér nú um stundir. Það er hins vegar fleira sem þar kemur til. En ég held að ég verði að vara við því sem fram kemur í efnahagstillögum frá Vinstri grænum í þingmáli þeirra þar sem að eitt helsta vandamálið virðist vera stóriðjan og að við mundum leysa öll mál með því að hætta við stóriðjuna, að setja bann á hana í einhvern tiltekinn tíma. Við sjáum það hins vegar í framreikningum í þjóðhagsspánni að þegar framkvæmdunum lýkur, þeim framkvæmdum sem við vitum að verða og eru í gangi, mun hagvöxturinn minnka umtalsvert. Ef við ætlum að halda áfram því þjónustustigi sem við erum með og þeim framkvæmdum sem við viljum fara í, þá verður um halla að ræða hjá ríkissjóði. Það segir okkur að 2,5% hagvöxtur er ekki nægjanlegur fyrir þessa þjóð sem er svona ung og er að stækka svo ört. Ég er því hræddur um að ef gefin yrði út yfirlýsing um að engar stóriðjuframkvæmdir yrðu í sjö ár yrðu það sjö mögur ár. Jafnvel þótt Vinstri grænir væru þá komnir í ríkisstjórn og þjóðin mundi fljótt skipta um skoðun þá gæti skaðinn verið skeður og við mundum þrátt fyrir stuttan stjórnartíma samt upplifa sjö mögur ár af þeirra völdum.