132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:04]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður sé að vísa til samanburðar við launaflokka sem voru hækkaðir á sínum tíma umfram aðra launaflokka til að hækka laun hinna lægst launuðu sérstaklega. Það voru mjög fáir í þessum launaflokkum. Það var sérstakt samkomulag sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu og um það var talað að þessir launaflokkar og þessi hækkun ætti ekki að vera til viðmiðunar á einn eða neinn hátt. Ef þetta er hins vegar skoðað út frá þróun á framfærsluvísitölum þá hafa kjör allra þessara hópa sem verið er að ræða um í þessari umræðu batnað umtalsvert og kjör þeirra hópa sem eru á bótum batnað meira en annarra.

Það er rétt að í flestum löndum Vestur-Evrópu eru kjör almennt að batna. Hins vegar verður því ekki á móti mælt að kjör á Íslandi hafa batnað hraðar og meira en á flestum öðrum stöðum.

Varðandi það hvort ég ætli að halda áfram þeirri stefnu að beita skattkerfinu til að auka á misskiptinguna þá lít ég þannig á að skattkerfi almennt séu til jöfnunar. Hvort hægt sé að beita því á þann hátt sem hv. þingmaður lýsir og hvað þá að ég ætli að halda því áfram er eiginlega spurning sem er bara ekki hægt að svara því að hún styðst ekki við raunveruleikann.