132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra velti vöngum yfir ríkidæmi og jöfnuði og vísaði í hugleiðingar okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um það efni. Að sjálfsögðu höfum við ekkert á móti því að þjóðirnar verði burðugri, ríkari, auðugri, en við leggjum áherslu á jöfnuðinn. Á að banna misskiptinguna? spyr þá hæstv. ráðherra.

Stjórnmálin snúast í og með um þetta. Annars vegar eru þeir sem telja misskiptinguna vera í lagi og hins vegar hinir sem vilja draga úr henni. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum að reyna að koma í veg fyrir stjórnvaldsaðgerðir og lagasetningu sem stuðlar að aukinni misskiptingu. Við höfum t.d. gagnrýnt það þegar auðmönnum eru afhentar dýrmætar ríkiseignir á spottprís. Slíkt stuðlar að aukinni misskiptingu í þjóðfélaginu.

Allir hafa það betra, segir hæstv. ráðherra. Ég er ekki viss um það. Reyndar er ég handviss um að hið gagnstæða er uppi. Hér vara ég við því að einblína á tekjur, það sem kemur í vasann hjá fólki. Til þess að við áttum okkur á því hvort fólk hafi það betra eða verra verðum við að skoða samhengið á milli tekna annars vegar og útgjalda hins vegar. Þess vegna er erfiðara núna en fyrir fimmtán árum að vera fátækur og heilsulaus. Þetta er hið pólitíska samhengi sem hæstv. ráðherra virðist ekki koma auga á.

Að hætta við stóriðjuna er allra meina bót telur ráðherra vera það sem upp úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði standi. Svo er ekki. Við höfum hins vegar bent á samhengið á milli stóriðjuframkvæmda, neikvæðra viðskiptakjara og aukinnar (Forseti hringir.) skuldsetningar þjóðarinnar.