132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:19]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ástæða til að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með embættið af því að hann er hér í fyrstu eldskírn sinni sem fjármálaráðherra við þessa fjárlagaumræðu og ég ætla líka að óska honum sérstaklega til hamingju með að hafa þó náð því að verða fjármálaráðherra á árinu 2005 en ekki 2006 því ég er nokkuð sannfærður um að það fer að minnka hamingjan yfir því að koma saman fjárlögum ef svo heldur fram sem horfir hjá hæstv. ríkisstjórn.

Það gefur auðvitað auga leið að það er auðvelt að koma saman fjárlögum á veltiárum eins og við erum að upplifa nú þegar ríkissjóður fær inn geysilegar tekjur af viðskiptahalla, umframeyðslu og þenslu þjóðarbúsins og þetta sýna allar breytur í búskapnum á yfirstandandi ári. Áhyggjuefnið er hins vegar það að ríkisstjórnin er með skattalækkunarstefnu sinni að skerða verulega hina beinu og stöðugu tekjustofna ríkisins en þannig er það jafnan að þegar hagsveifla gengur til baka og niðursveifla kemur þá eru það beinu skattarnir sem eru stöðugastir og halda sér uppi á meðan kannski tekjur ríkissjóðs af innflutningi, tollum og aðflutningsgjöldum og jafnvel af veltusköttum, virðisaukaskatti geta dregist snöggt saman.

Nú liggur það fyrir að með þessu skattalækkunarprógrammi ríkisstjórnarinnar, gangi það allt til enda, er í tekjuskattinum einum, þ.e. í fjögurra prósentustiga lækkun tekjuskattsins á þremur árum og niðurfellingu hátekjuskattsins, verið að afsala ríkissjóði tekjum sem eru í nágrenni við 20 milljarða kr. á núgildandi verðlagi. Það eru ekki litlir peningar. Og ætli það geti ekki farið svo að fjármálaráðherrar framtíðarinnar muni sakna vinar í stað þar sem er þessi tekjustofn svona mikið skertur og hann verður þó orðinn þegar hagsveiflan snýst við og það dregur snöggt og verulega úr tekjum ríkissjóðs af þeirri eyðslu sem núna er uppistaðan í auknum tekjum ríkissjóðs. Skattalækkanirnar eru m.a. af þessum ástæðum varhugaverðar en verstar eru þær auðvitað vegna þess að þær eru svo bersýnilega rangt útfærðar. Að því marki sem menn gætu orðið sammála um að svigrúm væri til skattalækkana þá á auðvitað að nota það svigrúm til að leiðrétta og færa til baka þá auknu skattbyrði sem lágtekjufólk á Íslandi hefur tekið á sig síðastliðin 15 eða nær 20 ár frá því að staðgreiðsla var tekin upp með meira og minna stanslausri raunlækkun skattleysismarka. En það er auðvitað veruleikinn. Þar er hin stóra tilfærsla skattbyrði sem orðið hefur hægt og hljótt í gegnum það að skattleysismörkin hafa ekki fylgt þróun verðlags og þaðan af síður þróun launa, ættu að vera eitthvað um 85–90 þús. kr. ef þau hefðu fylgt þróun verðlags og 115–120 þús. kr. ef þau hefðu fylgt þróun launa frá því sem var á sínum tíma.

Það er fróðlegt fyrir menn — það er ekki tími til þess nú en ég tók hið fræga blað Frjálsrar verslunar með tekjuyfirliti ársins í fyrra eins og það birtist núna í álagningunni og skoðaði aðeins hvernig þessar jólagjafir koma út hjá hæstv. ríkisstjórn gagnvart tekjuhæstu hópum samfélagsins. Það er athyglisvert að það fjölgar hratt á milli ára t.d. í þeim hópnum sem fer yfir 2 millj. kr. í mánaðarlaun. Við erum sem sagt komin með milli 70 og 80 einstaklinga sem lenda inni á þessu yfirliti og þeir eru auðvitað fleiri, sem hafa 2 millj. kr. eða meira, allt upp í 20 millj. kr. í laun á hverjum einasta mánuði, tuttuguföld lágmarkslaun launamanna eins og þau eru í dag, rétt skríða yfir 100 þús. kr. Þessum hópum, 2 millj. kr. mönnunum eru færðar milli 50 og 60 þús. kr. í gjöf á mánuði hverjum bara með breytingunum núna, með niðurfellingu 2% leyfa af hátekjuskatti og 1% lækkun almenns tekjuskatts. En láglaunafólkið sem er á lægstu umsömdu kauptöxtum milli 100 og 110 þús. kr. fær hundraðkalla. Þetta er réttlæti stjórnarflokkanna. Þetta er skattastefna þeirra. Sjálfstæðisflokkurinn hefur algerlega haft sitt fram og Framsóknarflokkurinn veður flórinn alveg upp að hnjám og er að framkvæma einhverja mestu frjálshyggjustefnu í skattamálum sem sést í allri Vestur-Evrópu. Þegar þetta prógramm hefur verið keyrt í gegn með þessum lágu skattleysismörkum og engum hátekjuskatti verður íslenski tekjuskatturinn einn sá flatasti sem fyrirfinnst í heiminum og minnst prógressívur sem sagt, eins og það er stundum kallað, þannig að þetta verður paradís fyrir hátekjufólk.

Síðan vil ég víkja aðeins að því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði um stóriðju og tillögu okkar Vinstri grænna. (HBl: Það er nú það sem við viljum, hafa paradís á jörðu.) Já, fyrir hátekjufólkið en ekki fyrir almenna launamenn og langt er nú hv. þm. Halldór Blöndal kominn frá uppruna sínum. Einu sinni hafði hann skilning eða hans ættmenni a.m.k. á kjörum allrar alþýðu en það er liðin tíð. Nú eru það bara þessi 3–5% þjóðarinnar sem hagnast sérstaklega og stórkostlega á skattastefnu ríkisstjórnarinnar sem hafa ástæðu til að gleðjast. Milljón krónu flokkurinn og tveggja milljón krónu flokkurinn, 10 millj. kr. hópurinn og 20 millj. kr. hópurinn, mælt í launum á mánuði hverjum, þeir fá stórar gjafir um næstu jól frá ríkisstjórninni, það munar um 500, 1.000, eina milljón, eða hvað það verður mikið sem gjafirnar verða hjá þessu fólki. Það er ekki dónalegt fyrir mann sem hefur 20 millj. kr. í laun á mánuði eins og dæmi eru um á Íslandi að fá 3% lækkun tekjuskatts með niðurfellingu hátekjuskatts og 1% flatri lækkun.

Vegna þess sem hæstv. fjármálaráðherra sagði um stóriðjuna og áherslur okkar í þeim efnum, þá vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra á móti um þau vandamál sem hann sagði að kæmu varðandi hagvöxt eftir 2007 þegar engar væru stóriðjuframkvæmdirnar. Er hæstv. fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen af gamla skólanum og trúir hann því virkilega að ekkert nema erlendar stóriðjufjárfestingar geti drifið áfram hagvöxt í íslenska hagkerfinu? Er það virkilega svo að við sitjum enn uppi með eftirlegukindur sem hafa þessa undarlegu skoðun að engir burðir séu til þess í hinu almenna atvinnulífi í formi nýrra vaxtargreina íslensks atvinnulífs að halda hérna uppi eðlilegu hagvaxtarstigi ef skilyrði eru til þess? Þau eru það auðvitað ekki í dag með gengi á krónunni eins og raun ber vitni eða öðrum aðstæðum. Svo kemur klisjan um að 2,5% hagvöxtur sé ekki nóg á Íslandi af því að við séum svo ung þjóð. Halda menn að það sé vandamál að við erum ung þjóð? Átta menn sig ekki á því að það er styrkur fyrir íslenska hagkerfið að við erum ung þjóð. Það eru stærri árgangar á leiðinni á vinnumarkaðinn og aldurssamsetning þjóðarinnar efnahagslega betri en flestra annarra þjóða í Vestur-Evrópu. Það eru aðeins Írar sem eru okkur sambærilegir í þessum efnum og við erum tvær yngstu þjóðir Evrópu að þessu leyti og það er gott, það er styrkur fyrir efnahagslífið. Það sem þarf að tryggja er að þetta unga fólk eigi kost á góðri menntun og þess bíði hagstæð skilyrði þegar það kemur út á vinnumarkaðinn eða vill hasla sér völl í atvinnulífinu. Þannig að þetta er alveg, ótrúleg afdönkuð hugmyndafræði sem hér er borin á borð fyrir menn af tiltölulega ungum hæstv. fjármálaráðherra. Að ekkert nema þessi gamaldags þungaiðnvæðing geti drifið áfram hagvöxtinn. Þetta er hugmyndafræðin frá 5. og 6. áratugnum sem menn eru algerlega búnir að kasta fyrir róða alls staðar þar sem nútímaleg nálgun í sambandi við nýsköpun er í atvinnulífi og fjölbreytni og stuðningur við nýgræðinginn eru lykilorðin. En svo kemur einn hæstv. fjármálaráðherra, að vísu úr þessari ríkisstjórn sem er drifinn áfram af þessu eina hugsjónamáli, þungaiðnvæðingunni, og ber það á borð fyrir okkur að það megi alls ekki fara í neitt stóriðjubindindi til að hægja hér á og kæla niður hagkerfið vegna þess að þá detti hagvöxturinn niður. Þvílík vantrú á öllu öðru sem getur skapað verðmæti í þjóðfélaginu og skilað okkur fram á veginn.

Það sem er einmitt hættulegast við stóriðjustefnuna er það hvernig hún er að rústa möguleikum til nýsköpunar og verðmætasköpunar á öðrum sviðum í atvinnulífinu. Ruðningsáhrifin eru geigvænleg eins og við erum að verða vitni að þessa dagana og það eru ekki bara láglaunastörf í ferðaþjónustu eða fiskvinnslu. Það eru t.d. hátækni- og þekkingargreinar sem núna flýja land í stórum stíl. Þetta er ekki bara eitthvað sem ég er að finna að, þetta segja forsvarsmenn þeirrar starfsemi.

Að síðustu hlýt ég að nefna gæluverkefni ríkisstjórnarinnar sem eins og venjulega er á sínum stað. Það er alveg kostulegt að lesa það að eina ferðina enn bólgnar ríkislögreglustjóraembættið út, ekki til að efla almenna löggæslu sem væri full þörf á. Nei, það eru gæluverkefnin, það er sérsveitin, það er herinn í útlöndum, það eru vopnakaup, þá eru til nógir peningar. En það eru ekki til peningar til að halda áfram að greiða öryrkjum bensínstyrk. Þetta eru áherslurnar hjá hæstv. ríkisstjórn. Við getum tekist lengi á um hin stóru mál sem varða stöðuna og óstöðugleikann í efnahagsmálum, hagstjórnarverkefni o.s.frv. En verkin sýna merkin í svona löguðu. Það er rifinn bensínstyrkurinn af öryrkjum. Það eru settir tugir og hundruð milljóna í gæluverkefni ríkisstjórnarinnar á sviði vopnakaupa, (Forseti hringir.) vígvæðingar, hergagnaflutninga út um heiminn og þar fram eftir götunum.