132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:36]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þau viðurkenningarorð sem hann fór um þá skattastefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir. Við erum að reyna að koma hér á sem flötustum skatti, það liggur fyrir. Við höfum lækkað skattprósentuna á Íslandi, en það er af og frá að við höfum lækkað skattinn vegna þess að aðalatriðið í skattlagningu er að varðveita skattstofninn. Við vorum einu sinni með 50% skatt á fyrirtækjum, við höfum lækkað hann niður í 18%. Allan tímann var skatturinn að aukast. Ég er sannfærður um það, herra forseti, að ef við lækkum hann enn meira mun hann vaxa enn hraðar.

Það sama á við um tekjuskattinn. Tekjuskatturinn er að aukast, hann er ekki að minnka. Það er einmitt með því að varðveita það gildi og passa upp á að þjóðin sé vinnufús sem skiptir öllu máli. Það er jaðarskatturinn sem er fráhrindandi og hættulegur hverju samfélagi.

Síðan vildi ég spyrja hv. þingmann af því að hann ræddi hér um starfsskilyrði atvinnuveganna: Telur hann þegar fyrir liggur að í fyrra voru 17 milljarðar af viðskiptahallanum vegna stóriðjuframkvæmdanna, í ár eru það 37 milljarðar og á næsta ári eitthvað svipað eða 25% áætlað, telur hann að stóriðjuframkvæmdirnar einar sér valdi þessu háa gengi? Eða vill hann ekki viðurkenna að það hlýtur að vera eitthvað annað og fleira sem veldur því að við erum með svona hátt gengi? Vill hann ekki segja okkur frá því hvort hann líti svo á að þetta sé eðlilegt eða heilbrigt og ef hann sér einhvern flöt á því, telur hann þá ekki rétt að við færum gengið til jafnvægis í stað þess að halda því uppi með handafli eins og Seðlabankinn stendur fyrir í dag?