132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Enn kemur ræðan um hinn vonda Seðlabanka sem sé meinsemdin í þessu öllu saman. Það er út af fyrir sig rétt að ef maður tekur stóriðjufjárfestingarnar sem slíkar og setur þær í samhengi við ýmsar aðrar stærðir í hagkerfinu eins og útlánaþenslu bankanna o.s.frv. þá eru þær ekkert óskaplega stórar en við vitum að þær verka á tvo vegu. Annars vegar eru hin beinu efnislegu áhrif af þeim og hins vegar eru það væntingarnar. Það neitar því varla nokkur ábyrgur maður í umræðum um efnahagsmál að það sem aðallega varð til að keyra þetta af stað voru hinar stórfelldu samþjöppuðu stóriðjuframkvæmdir og væntingarnar sem þær keyrðu upp í þjóðfélaginu. Í viðbót kom svo skattalækkunarprógramm ríkisstjórnarinnar, lögfest langt fram í tímann, sem auðvitað var arfavitlaust þegar það bætist við það sem þá þegar lá fyrir í sambandi við stóriðjuna. Í þriðja lagi hafa menn keyrt hér algjörlega út af hvað varðar ástandið á fasteignamarkaði og má segja útlánaþenslu bankanna þar í viðbót.

Hvað varðar stóriðjustefnuna þá verður ekkert af henni þvegið að hún er verulegur upphafsorsakavaldur í þessu. Það er bara þannig. Ef menn boða svo áfram meira í beinu framhaldi af núverandi framkvæmdahrinu þá fara menn að gæla við það í huga sér að kannski verði bara ástandið svona áfram.

Tekjuskattur lögaðila var einu sinni 50%, segir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, og ég sé það í súluritum hér frá merkum ráðuneytum. Vilja menn þá ekki vera svo góðir að reikna þetta á raungrunni? Tekjuskattur lögaðila var 50% í 30% verðbólgu í eftirágreiddum skatti. Það þarf heldur betur að leiðrétta fyrir því. Auðvitað var rauntekjuskattsprósenta lögaðila aldrei svona há og það er ótrúlegt að menn skuli bera þetta á borð sisona endalaust. Ég bið um að í næsta fjárlagafrumvarpi fylgi þá leiðrétt skjal að þessu leyti.

Varðandi vinnustundir hér á landi og að það sé aðalatriðið að þjóðin sé vinnufús. Það hefur ekki verið vandi okkar hingað til með langlengstu vinnuviku í Evrópu og á uppleið, 48 stundir (Forseti hringir.) að meðaltali. Það er því dálítið sérkennilegt að heyra menn koma með þessi klisjurök hér.