132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:55]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það líður nú á seinni hluta umræðunnar í dag sem hefur verið ágæt og málefnaleg. Sú mynd sem við okkur blasir er ákaflega skýr. Allir málsmetandi aðilar í íslensku samfélagi hafa í þessari viku fellt þann dóm yfir fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2006 að þar sé hvergi nærri nógu mikið aðhald og að það takist ekki á við það verkefni sem við blasir, að halda aftur af verðbólgunni. Þegar talað er um aðhald í þessu sambandi er ekki aðeins um útgjöldin að ræða heldur er líka verið að tala um tekjurnar.

Ljóst er af ræðum stjórnarliða að ríkisstjórnin hefur gefist upp við verkefnið. Komið hefur fram við umræðuna að menn treysta sér hvorki til að draga úr þeim útgjöldum sem þeir hafa lagt til né hitt, að auka tekjurnar. Þá er full ástæða til að hafa áhyggjur. Þá spáir jafnvel sjálft fjármálaráðuneytið því að verðbólga verði hér viðvarandi umfram þau markmið sem við höfum sett okkur. Það er jafnvel hætta á því, eins og kom fram hjá hv. þingmanni Einari Oddi Kristjánssyni, að hér verði einhver skellur þó að vonandi verði það mjúk lending. Þetta er ekki hræðsluáróður. Þetta er staða mála að bestu manna yfirsýn. Við höfum reynsluna fyrir okkur. Það eru aðeins örfá ár síðan hið sama gerðist.

Það sem hæstv. ríkisstjórn kallar mjúka lendingu var 9% verðbólga árið 2001. Það er það sem við köllum mjúka lendingu og guð forði okkur þá frá því að hún verði harkaleg því að 9% verðbólga á einu ári, í landi þar sem meðalheimilið skuldar tíu milljónir kr., hækkar skuldir þess heimilis í einu vetfangi um nærfellt milljón kr. Ef það er mjúk lending þá skulum við vona að hér takist mönnum að halda þannig á spilunum að hún verði a.m.k. ekki harkaleg. Til þess að svo megi verða er ljóst, fyrst að ríkisstjórnin hefur gefist upp við viðfangsefnið og treystir sér ekki til að sýna það aðhald í ríkisfjármálunum sem nauðsynlegt er, að aðrir aðilar í samfélaginu verða að hjálpa ríkisstjórninni við að takast á við vandann. Það verður Seðlabankinn að gera með vaxtastefnu sinni, það verða bankarnir að gera í útlánastefnu sinni og það verða aðilar vinnumarkaðarins að gera í þeim viðræðum sem þeir eiga í. Upp á okkur í stjórnarandstöðunni stendur þá að leggja ríkisstjórninni gott til og hafa tillögur fram að færa hér við 2. umr. um fjárlögin, um það sem betur má fara.

Sá vandi sem við er að glíma er uppsafnað aðhaldsleysi margra ára. Það er ljóst að á því verður ekki unnið í einu vetfangi. Ég held að það sýni sig að við þurfum að ræða um grundvallarkerfisbreytingar. Við skulum tala um veruleikann eins og hann er.

Hér er ekki voðinn vís, sagði hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson. Vissulega er það hætta og voði ef verðbólgan fer af stað. En við skulum minnast þess að efnahags- og atvinnulíf landsins er öflugt og við höfum náð miklum árangri á undanförnum árum. Við höfum ástæðu til að vera bjartsýn á framtíðina. En við höfum líka reynsluna af því að kollsigla okkur með sveiflum í íslensku hagkerfi vegna þess að menn hafa ekki tekið hlutverk sitt nægilega alvarlega, ekki tekið það nægilega alvarlega að jafna hagsveifluna. Til þess að gera það hljótum við að þurfa að ræða og hrinda í framkvæmd kerfisbreytingum sem gætu leitt okkur til farsælli stjórnar ríkisfjármála og þar með efnahagsmála á komandi árum.

Við höfum í þessari umræðu sagt að mikilvægasta kerfisbreytingin til að tryggja hér áframhaldandi stöðugleika sé að hverfa af braut aukinnar misskiptingar í skattheimtu landsmanna. Ég lýsi áhyggjum af því að hæstv. fjármálaráðherra sýnir því ekki skilning að það getur ekki gengið til lengdar að auka hér sífellt skattaálögur á þá sem minnst hafa. Við höfum bent á að ellilífeyrisþegar með 110 þúsund kr. á mánuði greiða umtalsvert hærra hlutfall af tekjum sínum í skatta en áður var meðan hátekjufólkið fær hvern jólapakkann á fætur öðrum. Frá því kerfi verður að snúa því að sú þróun sundrar samfélaginu sjálfu, sem við erum að stjórna, í svo ólíka hópa að ekki verður við unað. Slík misskipting fjármuna ógnar stöðugleikanum. Hv. þm Einar Oddur Kristjánsson talaði hér áðan um verkafólkið og sagði réttilega að það hefði axlað ábyrgðina á stöðugleikanum. En verkafólkið getur ekki gert þetta endalaust ef stjórnvöld eru síðan sífellt að létta sköttum af hátekjufólkinu en þyngja skattheimtuna á hina lægst launuðu.

Við hljótum líka að þurfa að taka ríkisfjármálin miklu fastari tökum. Ég bendi hæstv. fjármálaráðherra á að lesa í upphafi ferils síns síðu 45 í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga. Hún rekur ágætlega þá lausung sem hér hefur viðgengist í ríkisfjármálum og þar segir berum orðum að sá háttur sem hafður hefur verið á í því þekkist hvergi hér í löndunum í kringum okkur. Það er einfaldlega þannig að í aðhaldi í útgjöldum í ríkisfjármálum eru fáar töfralausnir. Þar þarf aga og festu í vinnubrögðum frá degi til dags til þess að vandinn í útgjöldunum safnist ekki upp ár frá ári og verði jafnmikill og við okkur blasir núna. Hér þarf áætlunargerð að vera miklum mun nákvæmari en verið hefur.

Tuttugu milljarða frávik frá frumvarpi til fjárlaga og til niðurstöðu í ríkisreikningi ár eftir ár eftir ár getur ekki gengið lengur, að fjárlagaliðir og stofnanir tugum saman fari ár eftir ár langt fram úr fjárheimildum sínum án þess að við því sé brugðist, menn áminntir eða gripið til þeirra aðgerða sem þörf krefur. Það getur ekki gengið lengur. Hér verður að kalla eftir miklu meira aðhaldi og eftirliti í ríkisrekstrinum og ég vona svo sannarlega að hæstv. fjármálaráðherra, nýr, einhendi sér í að skerpa aðhald og eftirlit í ríkisrekstrinum og stuðla að því að áætlunargerðin og fjárlögin sjálf haldi frá því að þau eru lögð fram og þar til þeim er hrint í framkvæmd. Fjárveitingavaldið er hér hjá Alþingi og á ekki að vera eftir geðþótta manna í einstökum stofnunum framkvæmdarvaldsins og í framúrkeyrslum ár eftir ár. Þannig munum við fyrst og fremst geta haldið aftur af ríkisútgjöldum til lengri tíma með aðhaldi frá degi til dags og þá kerfisbreytingu þurfum við að gera.

Við hljótum líka að þurfa að skoða þá kerfisbreytingu sem snýr að íslensku myntinni, sem er nú ekki stór mynt eins og menn þekkja. Samfylkingin hefur flutt tillögu hér á Alþingi um að tekið verði til skoðunar hvort og þá hvaða mynt gæti leyst íslensku krónuna af hólmi. Það er engum blöðum um það að fletta að sveiflur hafa verið á henni undanfarin ár. Árið 2000, trúi ég, úr því að vera 70 krónur í hverjum dollara í það að vera 115, eða helmingi veikari. Þetta skapar okkur erfiðleika í áætlunargerð og veldur óstöðugleika.

Að síðustu vil ég nefna þá kerfisbreytingu sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson nefndi hér áðan. Það er verðtryggingarkerfið okkar og við hljótum að þurfa að spyrja: Hvers vegna gengur okkur verr en öðrum þjóðum að hemja hagsveiflurnar? Hvers vegna erum við að taka þessa skelli? Þá hljótum við að skoða hvað er öðruvísi hjá okkur en hjá nágrannaþjóðum okkar. Eitt af því sem er öðruvísi hjá okkur og einstakt fyrir Ísland (Forseti hringir.) er hve verðtryggingin er ríkur þáttur í lánakerfinu og hefur þau áhrif að vaxtastefna Seðlabankans bítur ekki nóg (Forseti hringir.) þó að vissulega bíti hún.