132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:28]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er hið stóra álitamál hve traustum fótum íslenskur efnahagur stendur og við verðum að skoða þar ýmis teikn á lofti. Ég legg mikið upp úr því að fara rétt með þær tölur sem ég nefni og ég vísa hér í tölur sem koma frá Seðlabanka Íslands. Samkvæmt þeim tölum námu skuldir ríkissjóðs og ríkisstofnana á síðasta ári 21,67% af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt tölum Seðlabankans er áætlun fyrir þetta ár 17,09%. Þetta eru nýjar tölur sem liggja fyrir frá Seðlabanka Íslands.

Það er alveg rétt að nú er búið að selja Símann. Það er ekki búið að ráðstafa öllum þeim fjármunum sem þar koma inn. En ég legg áherslu á að ég er að lesa hér upp úr og vísa til gagna sem koma frá Seðlabanka Íslands.