132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:37]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er best að hefja kennslustundina. Ríkissjóður fær vissulega umframtekjur í dag vegna innstreymis peninga, vegna eyðslunnar sem er í samfélaginu umfram verðmætasköpun, vegna viðskiptahallans. Hv. þingmaður varaði við viðskiptahallanum og sagði að hann væri hættulegur og slæmur, hversu mjög Íslendingar ykju skuldir sínar. Ég tók undir það með honum. Það er nauðsynlegt að við reynum að ná jafnvægi og stöðva þessa eyðslu fólks og fyrirtækja. Það er mjög nauðsynlegt.

Ef okkur tekst að ná sæmilegu jafnvægi í viðskipti við útlönd munu tekjur ríkisins lækka um 12–15 milljarða kr. Ég segi, virðulegi forseti, að það er gott. Það er prýðilegt. Ríkið hefur ekkert með þá peninga að gera, bókstaflega ekki neitt. Ríkissjóður er í jafnvægi og skuldar lítið. Aðalatriðið fyrir ríkissjóð gagnvart framtíðinni er að atvinnustarfsemin, fólkið í landinu, standi sem best.

Við höfum vitnisburð erlendra stofnana um samanburð þjóðanna. Við erum talin einhver best menntaða þjóð heimsins. Við erum talin sú þjóð sem er einna heilbrigðust og talin sú þjóð sem hefur sýnt mesta framleiðniaukningu. Allt þetta mun koma okkur til góða. Það eru engin vandamál. (ÖJ: Hvenær hefst kennslustundin?) Þess vegna er ég að kenna hv. þingmanni þetta að hann má ekki líta á það sem stórkostleg vandræði fyrir ríkissjóð að þessar umframtekjur hverfi. Það er bara gott. Við erum sammála um það að leita jafnvægis í viðskiptunum en þá munu tekjurnar minnka. Ríkissjóður er núna ætlaður með 14 milljarða kr. afgangi. Það er ekkert keppikefli í sjálfu sér að ríkið sé rekið með einhverjum stórkostlegum afgangi á hverju ári. Það er ekkert keppikefli. Aðalatriðið er að við stöndum þannig að málum að atvinnufyrirtækin geti blómstrað og menn hafi mikla vinnu.